Skoðun

Traust fjármálastjórn og betri þjónusta

Dagur B. Eggertsson skrifar
Þegar Besti flokkurinn og Samfylkingin tóku við stjórn borgarinnar árið 2010 voru fjármál borgarinnar í rúst. Orkuveitan stóð sérstaklega tæpt enda vantaði 50 milljarða til að fyrirtækið kæmist í gegnum næstu ár. Gatið í fjármálum borgarsjóðs sem loka þurfti í fyrstu fjárhags­áætluninni var fimm milljarðar. Stóra verkefnið var niðurskurður og hagræðing en á sama tíma þurfti að ýta undir atvinnusköpun, fjárfestingu og ferðaþjónustu. Um leið var atvinnuleysi í methæðum með tilheyrandi útgjöldum úr borgarsjóði.

Þegar ársreikningur borgarinnar fyrir árið 2018 var lagður fyrir borgarráð í gær var ljóst að þriðja árið í röð stefndi í góðan og öruggan afgang af rekstri borgarsjóðs og fyrirtækja borgarinnar. Rekstrarniðurstaða A-hlutans, sem er rekstur og eignir borgarsjóðs skilaði niðurstöðu upp á 4,7 milljarða. Það er á pari við árið 2017 sem einnig var gríðarlega sterkt ár. Þessi góði árangur náðist þrátt fyrir að árið 2018 hafi verið okkar stærsta ár í fjárfestingum í innviðum og þrátt fyrir þá staðreynd að við höfum aukið framlög til skólamála og velferðarmála til muna.

Traust fjármálastjórn hefur verið aðalsmerki borgarinnar frá 2010. Þegar svigrúm hefur skapast hefur það verið nýtt til að bæta þjónustu þeirra sem mest þurfa á að halda ásamt því að sinnt hefur verið umfangsmikilli innviðauppbygginu. Reksturinn gengur vel, fjárfestingar eru miklar og sterk staða er á handbæru fé. Um leið eru teikn á lofti í efnahagslífinu og rekstur margra sveitarfélaga í járnum. Ljóst er að sveitarfélög þurfa að halda vel á spöðunum og stýra fjármálum áfram af ábyrgð. Reykjavíkurborg er vel í stakk búin til að takast á við framtíðina á traustum grunni. Þess vegna fögnum við sérstaklega niðurstöðu þessa ársreiknings sem ber vott um borg sem hefur metnað fyrir framúrskarandi þjónustu, áherslu á góða innviði og síðast en ekki síst – forgangsraðar í þágu aukinna lífsgæða íbúa, velferðar- og skólamála.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×