Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir að sér þyki það ógeðfellt að sjá verslanir auglýsa sérstakan tilboðsdag í dag, á alþjóðlegum baráttudegi verkafólks, 1. maí. Bæði Húsgagnahöllin og Rúmfatalagerinn auglýstu tilboð sem gilda aðeins í dag í Fréttablaðinu í morgun.
„Ég hef hvatt fólk til þess að sniðganga verslun á þessum degi. Mér finnst mjög ógeðfellt að sjá auglýsingar jafnvel á forsíðum stóru blaðanna að þetta sé orðinn sérstakur tilboðsdagur þessi alþjóðlegi baráttudagur verkalýðshreyfingarinnar. Mér finnst þetta reglulega ógeðfellt og ég hvet í rauninni félagsmenn og almenning að sniðganga þessi fyrirtæki í dag og jafnvel geng svo langt að sniðganga þau sjálfur almennt út af þessu uppátæki hjá sumum fyrirtækjum,“ segir Ragnar í samtali við fréttastofu.
Hann segir þennan dag tilefni til þess að rífa sig upp og taka þátt í kröfugöngum og hátíðahöldum.
„Þetta er dagur sem að við þurfum að taka mjög alvarlega. Við þurfum að standa saman. Þetta er dagur sem við þurfum að nota sem áminningu fyrir það sem hefur áunnist í verkalýðsbaráttunni undanfarin ár og áratugi. Sömuleiðis líka að þétta raðirnar og auka bæði stéttavitund og finna fyrir samtakamættinum,“ segir Ragnar.
Margt er um að vera um land allt. Hátíðahöld fara fram í meira en 30 sveitarfélögum á landinu og stóru stéttarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eru öll með kaffisamsæti eftir kröfufund á Ingólfstorgi.
Í flestum sveitarfélögum landsins er eitthvað um að vera í dag og inni á vef Alþýðsambandsins má sjá yfirlit yfir hátíðarhöld og kröfugöngur. Á Akureyri mun fólk safnast saman við Alþýðuhúsið og fer kröfugangan af stað þaðan klukkan tvö.
Á sama tíma fer gangan frá Alþýðuhúsinu á Ísafirði af stað og endar með dagskrá í Edinborgarhúsinu. Á Egilstöðum hófst hátíðardagskráin hálf ellefu í morgun.
Í Reykjavík hefst dagskráin klukkan hálf tvö með kröfugöngu frá Hlemmi og niður Laugaveg sem endar svo á Ingólfstorgi þar sem verða ræðuhöld og skemmtun.
Klukkan 12:30 hefst akstur Bifhjólasamtaka lýðveldisins. Aksturinn hefst á Laugavegi og endar hjá Bauhaus. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hvetur ökumenn til að sýna þolinmæði, tafir gætu orðið á umferð og mælast þeir til á Facebook-síðu sinni að fólk hækki bara í útvarpinu og syngi með.