Körfubolti

Houston jafnaði metin en Bucks í góðri stöðu | Myndbönd

Tómas Þór Þórðarson skrifar
James Harden var frábær.
James Harden var frábær. vísir/getty
Milwaukee Bucks er komið í algjöra lykilstöðu í einvígi sínu gegn Boston Celtics í undanúrslitum austurdeildar NBA eftir 113-101 sigur á útivelli í nótt en staðan er nú 3-1 fyrir Bucks.

Giannis Antetokounmpo, ofurstjarnan í Bucks-liðinu, fékk fjórðu villu sína snemma í þriðja leikhluta og var þá kippt á bekkinn en þar fékk Boston-liðið tækifæri til að taka forskotið og jafnvel stinga af.

Það gerðist svo aldeilis ekki því Giannis horfði á félaga sína ná tíu stiga forskoti og mætti svo sjálfur inn á í fjórða leikhluta og fór hamförum.

Gríska fríkið skoraði 17 af 39 stigum sínum í fjórða leikhluta þar sem að gestirnir gengu frá leiknum en hann bætti við það 16 fráköstum og fjórum stoðsendingum.

Kyrie Irving skoraði 23 stig fyrir Boston og Al Horford 20 stig en Celtics-liðið þarf nú að fara aftur til Milwaukee og vinna ef það ætlar ekki að fara í sumarfrí.

Houston Rockets jafnaði metin í einvígi sínu gegn meisturum Golden State Warriors í undanúrslitum vestursins í nótt með 112-108 sigri en Houston er nú búið að vinna tvo heimaleiki í röð eftir að tapa fyrstu tveimur í Oakland.

James Harden var magnaður í nótt og skoraði 38 stig en Harden skoraði úr tveimur vítaskotum þegar að 11,5 sekúndur voru eftir. Kevin Durant klikkaði á þriggja stiga skoti fyrir Golden State með tækifæri til að komast yfir, gestirnir tóku frákastið en Steph Curry klikkaði líka.

„Við fengum nokkur galopin skot. Þetta var bara ekki að ganga í dag,“ sagði Kevin Durant svekktur eftir leikinn.

Steph Curry hefur ekki verið að spila vel í seríunni en hann mætti til leiks í nótt og skoraði 30 stig en Harden stal senunni með 38 stigum, tíu fráköstum og fjórum stoðsendingum.

Næsti leikur fer fram í Oakland.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×