Enski boltinn

Búið að gera ráð fyrir tveimur sigur­skrúð­göngum í Liver­pool

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Það verður kannski fagnað í Liverpool næstu daga og vikur.
Það verður kannski fagnað í Liverpool næstu daga og vikur. vísir/getty
Allt er klárt í Liverpool-borg fyrir sigurskrúðgöngur ef svo fer að Liverpool vinni ensku úrvalsdeildina eða Meistaradeildina eða báðar keppnir. Þetta má sjá á vefsíðunni Visit Liverpool.

Liverpool komst í vikunni í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu með ótrúlegum 4-0 sigri á Barcelona og sneri þannig einvíginu eftir að tapa 3-0 á útvelli. Þá getur Liverpool orðið enskur meistari um helgina en þarf að treysta á að Manchester City tapi stigum.

Borgaryfirvöld í Liverpool ætla allavega að vera með allt klárt og er búið að gera ráð fyrir tveimur skrúðgöngum. Ef Liverpool vinnur ensku úrvalsdeildina verður farið á opinni rútu um borgina á mánudaginn kemur og fari svo að Liverpool fagni sigri í Meistaradeildinni verður skrúðganga sunnudaginn 2. júní.

Báðar skrúðgöngurnar eiga að hefjast klukkan 16.00 að staðartíma og er reiknað með því að leikmenn liðsins verði á opinni rútu með bikarinn og keyri um götur og stræti borgarinnar.

Fyrir þá sem að þekkja til eiga skrúðgöngurnar að hefjast við Allerton Maze en þaðan verður haldið norður á Queens Drive og endað verður við Blundell Street.

Liverpool á tvo leiki eftir á tímabilinu og getur annað hvort klárað það tómhent eða með einn bikar eða tvo.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×