Erlent

Páfinn hvetur hár­greiðslu­fólk til að hætta að slúðra

Atli Ísleifsson skrifar
Frans páfi hefur gegnt stöðu páfa frá árinu 2013.
Frans páfi hefur gegnt stöðu páfa frá árinu 2013. epa
Frans páfi hefur beint því til hárgreiðslufólks að „forðast að láta undan þeirri freistni að slúðra“. Hárgreiðslufólk ætti þess í stað að leita innblásturs hjá sextándu aldar dýrðlingi sem þekktur var fyrir að klippa hár, blóðtöku og aflimanir.

Páfi lét orðin falla þegar hann ávarpaði hóp hágreiðslufólks og snyrtifræðinga í pílagrímsferð til Páfagarðs í gær.

„Sinnið starfi ykkar á kristinn máta með því að koma fram við viðskiptavini ykkar af kurteisi og vinsemd, bjóða þeim góð ráð og hvatningu,“ sagði páfi. „Og forðist að láta undan þeirri freistni að slúðra sem er gjarnan tengd við ykkar starfssvið.“

Í frétt Deutsche Welle segir að Frans páfi hafi ávarpað um 230 manns og hvatti hann þá til að fara að fordæmi dýrðlingsins Martino de Porres, sem uppi var í kringum aldamótin 1600 og tekinn í dýrðlingatölu af páfanum Páli sjötta árið 1966.

Porres starfaði meðal annars við að skerða hár, taka blóð og aflima fólk. Sagði páfi að líkt og Porres gæti hárgreiðslufólk í starfi sínu „breytt á réttlátan máta og þannig skilað jákvæðu framlagi til samfélagsins“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×