Nýja-Sjáland hefur bæst í hóp þeirra landa sem hyggst banna einnota plastpoka með lögum, í von um að takast á við plastmengun.
Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, kynnti á föstudag áætlun um hvernig dregið yrði úr notkun plastpoka þar til henni væri hætt alveg á næsta ári. Hún segir þetta mikilvægt til að „passa upp á umhverfi okkar og gæta orðstírs Nýja Sjálands sem hreins og græns lands.“ Þetta kemur fram á vef Time.
„Á hverju ári nota Nýsjálendingar hundruð milljóna einnota plastpoka – heilt fjall af pokum og margir þeirra enda á því að menga hafið okkar og strendur og valda alvarlegum skaða á dýralífinu,“ sagði Ardern. „Við erum að reyna að taka skref í átt að því að minnka plastmengun okkar svo að komandi kynslóðir þurfi ekki að takast á við sömu vandamál og við.“
Nýsjálensk fyrirtæki munu þurfa að hætta að veita aðgengi að plastpokum á næstu sex mánuðum, annars munu þeir þurfa að borga hátt í 8 milljónir íslenskra króna í sektir.
Unnið var að banninu eftir að undirskriftalista með 65.000 undirskriftum var skilað til stjórnvalda.
„Þetta er líka eitt algengasta málefnið sem skólabörn tala um í bréfum sínum til mín,“ sagði Ardern.
Samkvæmt tölum frá Alþjóðabankanum framleiðir Nýja-Sjáland mest rusl á höfðatölu af þróuðum ríkjum.
