Erlent

Á þriðj­a hundr­að lát­in við taln­ing­u at­kvæð­a

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Telja þarf æði mörg atkvæði.
Telja þarf æði mörg atkvæði. Donal Husni/Getty
Yfir 270 starfsmenn allsherjarkosninga í Indónesíu eru látnir. Flest dauðsföllin má rekja til þreytu sökum langrar vinnu við að handtelja atkvæði kjósenda í forseta- og tvennum þingkosningum landsins.

Arief Priyo Susanto, talsmaður yfirkjörstjórnar kosninganna, segir 1878 starfsmenn til viðbótar hafa lagst í veikindi. Vinna við að telja atkvæðin hófst þegar Indónesíubúar gengu að kjörborðinu 17. apríl síðastliðinn.

Kjörsókn var um 80% sem þýðir að telja þurfti 155 milljónir atkvæða í hverjum kosningum fyrir sig. Alls var kosið á 800 þúsund kjörstöðum.

Þetta gríðarstóra verkefni virðist sannarlega hafa tekið sinn toll á starfsmenn kjörstjórnar en 272 þeirra hafa verið staðfestir látnir sökum yfirvinnutengdra veikinda.

Yfirkjörstjórn Indónesíu hyggst bæta fjölskyldum þeirra sem látist hafa ástvinamissinn með því að greiða um 36 milljónir rúpía á hvern látinn starfsmann. Það eru rúmar 300 þúsund íslenskar krónur og jafngildir árslaunum lágmarkslaunastarfsmanns í Indónesíu.

Þetta var í fyrsta sinn sem kosið var til forseta, landsþings og staðbundinna þinga á sama tíma í Indónesíu og telja margir það vera ástæðu fyrir því gríðarlega álagi sem starfsfólk kjörstjórnar stóð frammi fyrir.

Joko Widodo, forseti Indónesíu, og Prabowo Subianto, forsetaframbjóðandi, hafa lýst yfir sigri í kosningunum til forseta. Útgönguspár benda þó til þess að Widodo hafi haft betur með allt að tíu prósentustiga mun.

Gert er ráð fyrir að talningu atkvæða ljúki 22. maí næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×