Íbúar Súdans bíða nú í ofvæni eftir yfirlýsingu frá hernum í landinu en fastlega er búist við því að herinn ætli að taka völdin af forseta landsins Omar Bashir.
Tugþúsundir mótmælenda hafa verið fyrir framan varnarmálaráðuneytið í landinu síðustu daga og krafist breytinga en Bashir hefur stjórnað Súdan frá árinu 1989 þegar hann rændi völdum í landinu.
Þó er ekki víst að almenningur sætti sig við að Bashir verði fórnað en að menn hans í hernum og lögreglu fari áfram með stjórn mála í landinu, heldur er krafan sú að haldnar verði lýðræðislegar kosningar svo fljótt sem auðið er.
Mótmælin gegn stjórnvöldum hófust í desember eftir miklar hækkanir á nauðsynjavörum og eldsneyti en síðustu vikur hafa þau snúist upp í kröfu um afsögn forsetans.
