Erlent

Brexit: Þingmenn farnir í páskafrí og óljóst hvernig sögunni endalausu lýkur

Gígja Hilmarsdóttir skrifar
Útgöngu Breta var frestað í annað sinn aðfararnótt 11. apríl.
Útgöngu Breta var frestað í annað sinn aðfararnótt 11. apríl. Getty/Leon Neal
Það ætlar að reynast Bretum þrautin þyngri að ganga úr Evrópusambandinu. Útgöngunni hefur nú verið frestað í annað sinn en Bretland átti að ganga úr sambandinu í dag. Þingmenn eru nú farnir í páskafrí.

Fyrst var stefnt að því að ganga úr sambandinu þann 29. mars síðastliðinn. Í kjölfar framlengingu útgöngufrests Evrópuráðsins nú, frá 12. apríl til 31. október, hefur staða Theresu May forsætisráðherra og hvort eða hvenær Bretar gangi úr Evrópusambandinu skýrst örlítið.

Segir brýnt að knýja fram samning fyrir kosningar

May ávarpaði neðri deild breska þingsins í gær og tjáði þinginu að hún vildi reyna að knýja fram samning um útgöngu fyrir 23. maí eins og hún hefur ítrekað áður.

Það væri brýnt að þingið komist að sameiginlegri niðurstöðu áður en gengið verður til kosninga til Evrópuþings. Þær fara fram dagana 23.-26. maí næstkomandi.

Í gær var síðasti þingfundur neðri deildar breska þingsins fyrir páskafrí sem hófst í dag. Þingið kemur aftur saman 23. apríl næstkomandi.

Skýringarmyndin sýnir fram á mögulegar sviðsmyndir og afleiðingar þeirra. Það sem gæti gerst í framhaldinu eru nokkrar vendingar.
Komist þingið að samkomulagi um útgöngusamning fyrir 23. maí, eins og May óskar, ganga þeir úr sambandinu 1. júní næstkomandi. Gangi það ekki eftir taka Bretar þátt í kosningum til Evrópuþings.

Það gæti komið til nýrrar þjóðaratkvæðagreiðslu um Brexit eða að boðað verði til þingkosninga. Þá gæti farið svo að May verði bolað úr embætti en ljóst er að hún er völt í sessi.

Brugðið getur til beggja vona hvort útgöngusamningur gangi í gegn fyrir 31. október en það veltur á því  hvort neðri deildin landi samningi í tæka tíð.

Gangi það ekki eftir ganga Bretar úr ESB án samnings eða frestur útgöngu verður lengdur enn á ný.

 


Tengdar fréttir

Brexit frestað til 31. október

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hafði farið fram á frest til 30. júní en leiðtogar ESB ræddu málið langt fram á kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×