Körfubolti

Mamma körfuboltans í Þorlákshöfn: Þetta skiptir öllu máli fyrir samfélagið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jóhanna M. Hjartardóttir, formaður körfuknattleiksdeildar Þórs Þ.
Jóhanna M. Hjartardóttir, formaður körfuknattleiksdeildar Þórs Þ. mynd/skjáskot
Það má með sanni segja að Þór Þorlákshöfn sé fjölskyldufélag. Baldur Þór Ragnarsson er þjálfari Þórs, Hjörtur Ragnarsson, bróðir hans, er sjúkraþjálfari liðsins og þriðji bróðirinn, Þorsteinn Már, er aðstoðarþjálfari þess. Og móðir þeirra, Jóhanna M. Hjartardóttir, er formaður körfuknattleiksdeildar Þórs.

„Ég á þrjá syni og svo á ég alla hina,“ sagði Jóhanna þegar Svali Björgvinsson ræddi við hana fyrir leik Þórs og KR í Þorlákshöfn á þriðjudaginn. Þórsarar unnu leikinn, 102-90. Liðin mætast í þriðja sinn í DHL-höll KR-inga á morgun.

Jóhanna segir að körfuboltinn sé mikilvægur fyrir Þorlákshafnarbúa.

„Þetta skiptir öllu máli fyrir samfélagið. Þessu fylgir jákvæð umræða og þetta skapar samheldni hjá fólkinu í bænum. Núna eru allir að tala um körfubolta,“ sagði Jóhanna.

Stór hluti leikmanna Þórs eru uppaldir hjá félaginu sem verður að teljast vel af sér vikið hjá ekki fjölmennara bæjarfélagi en Þorlákshöfn.

„Það skiptir öllu máli. Við fengum þetta íþróttahús 1992 og þá byrjuðum við með körfuboltann. Síðan hefur verið stígandi í þessu. Við eigum rosalega flotta stráka og stelpur. Við vonumst til að geta verið með kvennalið eftir svona þrjú ár,“ sagði Jóhanna.

Viðtal Svala við Jóhönnu má sjá hér fyrir neðan. Þar má einnig sjá umfjöllun Domino's Körfuboltakvölds um starfið hjá Þór.

Klippa: Fjölskyldufélagið Þór
 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×