Almennir borgarar munu skipa næstu ríkisstjórn Súdans en ekki hermenn. Þetta sagði Omar Zain al-Abidin hershöfðingi sem situr í herforingjastjórninni er tekið hefur við eftir að herinn gerði valdarán og steypti Omar al-Bashir af stóli í vikunni. Sá hafði setið í þrjátíu ár en alþjóðleg handtökuskipun hafði verið gefin út á hendur honum vegna meintra stríðsglæpa og glæpa gegn mannkyninu.
Moammed Awad Ibn Auf, varnarmálaráðherra Súdans og fyrrverandi hershöfðingi, er yfir herforingjastjórninni. Hann sagði á fimmtudag að nú tæki við aðlögunartímabil sem gæti varað í tvö ár. Skemur ef hægt er að komast hjá ringulreið í landinu.
Almenningur hafði lengi þrýst á afsögn al-Bashir og mótmælt honum mánuðum saman. Þótt honum hafi verið steypt af stóli standa mótmælin hins vegar enn yfir. Mótmælendur gáfu lítið fyrir orð al-Abidin um stjórn almennra borgara í gær, samkvæmt Reuters. Samtökin SPA, sem hafa talað fyrir mótmælendur, sögðu að herforingjastjórnin væri ófær um að koma á kerfisbreytingum í landinu. Ibn Auf steig óvænt til hliðar seint í gærkvöldi eftir mótmælin.
„Þið munuð fá að leysa úr öllum efnahags- og stjórnkerfisvandamálunum. Við höfum enga hugmyndafræði heldur erum við nú við völd til að tryggja stöðugleika og öryggi og tryggja það sömuleiðis að súdanska þjóðin geti komið á breytingum,“ sagði al-Abidin.
Almennir borgarar munu stýra Súdan en ekki her

Tengdar fréttir

Virtu fyrirmæli herstjórnarinnar að vettugi
Mótmælendur í Súdan virtu í nótt fyrirmæli herstjórnarinnar að vettugi og hópuðust út á götur höfuðborgarinnar Kartúm þrátt fyrir útgöngubann.

Valdatíð eins alræmdasta þjóðarleiðtoga heims virðist á enda runnin
Háværar raddir eru uppi um að Omar al-Bashir hafi sagt af sér embætti sem forseti Súdans eftir þrjá áratugi við á valdastóli.