Sport

Skreið í mark í Boston maraþoninu til minningar um fallna félaga | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Micah Herndon á fjórum fótum á leið í mark.
Micah Herndon á fjórum fótum á leið í mark. mynd/skjáskot
Micah Herndon, fyrrverandi hermaður í Bandaríkjaher, skreið á höndum og fótum í mark í Boston maraþoninu eftir að líkaminn gaf sig þegar stutt var eftir en maraþonið fór fram í gær.

Herndon, sem er frá Tallmadge í Ohioríki, tók þátt í maraþoninu til minningar um þrjá fallna félaga úr hernum sem að hann kynntist í Afganistan.

Hann sagði við blaðið Record-Courier að alltaf þegar að hann er við það að gefast upp endurtekur hann nöfn þremenninganna; Mark Juarez, Matthew Ballard og Rupert Hamer.





„Ég hleyp þeim til heiðurs. Þeir eru fallnir frá en ég er hér og ég get hreyft mig. Ég er heppinn að hafa alla útlimi mína. Ég get enn þá gert hluti. Mér líður vel með það eitt að geta hlaupið. Sumir geta það ekki,“ sagði Herndon.

Hermaðurinn kom í mark á endanum á þremur klukkustundum og 38 mínútum en um leið og hann skreið yfir endalínuna var honum komið fyrir í hjólastól og honum veitt læknisaðstoð.

Herndon hljóp í skóm með nafnspjöldum félaga sinna á. „Ef ég er ekki að hlaupa líður mér eins og ég sé ekki að gera neitt við líf mitt. Ef mér líður eitthvað illa eða ég er alveg búinn á því endurtek ég nöfn félaganna minna. Þeir lentu í mun verri hlutum þannig að ég hleyp fyrir þá og fjölskyldur þeirra,“ segir Micah Herndon.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×