Innlent

Á ekki von á átökum í nefndinni um þriðja orkupakkann

Ari Brynjólfsson skrifar
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir. Fréttablaðið/Stefán
„Ég geng út frá því að nefndin muni nálgast málið með þeim hætti sem almenningur gerir kröfu til, við fáum gesti og sérfræðinga til að fara yfir málið þannig að flestir fái heildarsýn að nefndarstörfum loknum,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður utanríkismálanefndar.

Fyrri umræðu um þriðja orkupakkann lauk í síðustu viku og er nú á borði nefndarinnar. Óskað er eftir umsögnum frá 127 aðilum, sem er talsvert meira en við aðrar þingsályktunartillögur. Áslaug Arna gerir ráð fyrir að málinu verði lokið á nokkrum vikum.

Það er ljóst að um er að ræða mikið hitamál og hafa andstæðingar þriðja orkupakkans meðal annars sagt það stærra en IceSavemálið. Það mál leiddi til mikilla deilna innan fjárlaganefndar á sínum tíma.

Áslaug Arna á þó ekki von á miklum átökum innan nefndarinnar. „Mikið af umræðu sem hefur skapast byggist á ýmsum misskilningi sem mikilvægt er að fá á hreint inni í nefndinni.“

Logi Einarsson, fulltrúi Samfylkingarinnar í nefndinni, segir ríkisstjórnina hafa mætt óundirbúna til leiks. Hann á ekki von á því að átök verði í nefndinni. Ljóst sé að Miðflokkurinn, ásamt hópnum Orkan okkar, ætli að gera mikið mál úr þriðja orkupakkanum.

„Við erum búin að fá álit færustu sérfræðinga á þessu, þannig að í mínum huga snýst upphlaupið um eitthvað allt annað. Það er eðlilegt að fólk hafi áhyggjur, en hér er eitthvað allt annað, ég hef miklu meiri trú á því að málflutningur Miðflokksins snúi að EES-samningnum sjálfum,“ segir Logi.


Tengdar fréttir

Segir þörf á viðræðum um hvað býðst með sæstreng

Þriðji orkupakkinn liðkar ekki fyrir lagningu sæstrengs milli Íslands og Evrópu, að mati sérfræðings um orkumál, sem telur mikilvægt að horfa til þess að arður þjóðarinnar af orkuauðlindinni aukist.

Orkupakkinn í samræmi við stjórnarskrá

Þetta segja þeir Stefán Már Stefánsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, og Friðrik Árni Friðriksson Hirst, lögfræðingur, í bréfi sem þeir sendu Guðlaugi Þór Þórðarsyni, utanríkisráðherra, í dag.

Ógnandi umræða um þriðja orkupakkann

Pistlahöfundur sem styður þriðja orkupakkann segir umræðuna ógnandi og ofstopafulla. Var kallaður landráðamaður á launum. Vill að forsvarsmenn Orkunnar okkar axli ábyrgð. Talsmaður segir miklar tilfinningar í málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×