Innlent

Krefst mats á áhrifum kísilverksmiðjunnar í Helguvík á heilsu íbúa

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Ein af þeim kröfum sem Skipulagsstofnun fer fram á er mat á áhrifum kísilverksmiðjunnar á heilsu íbúa.
Ein af þeim kröfum sem Skipulagsstofnun fer fram á er mat á áhrifum kísilverksmiðjunnar á heilsu íbúa. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON BRINK
Skipulagsstofnun hefur fallist á tillögu framkvæmdarðilanna Stakksbergs ehf. að matsáætlun í tengslum við fyrirhugaðar endurbætur á kísilverksmiðjunni í Helguvík en þó með nokkrum athugasemdum.

Ein af þeim kröfum sem Skipulagsstofnun fer fram á er mat á áhrifum kísilverksmiðjunnar á heilsu íbúa. Stofnunin tekur þannig einnig undir mat Embættis landlæknis sem telur lýðheilsumat æskilegt.

Skipulagsstofnun bendir á að í mörgum athugasemdum við tillögu að matsáætlun frá almenningi séu ábendingar frá fólki sem hafi fundið fyrir óþægindum og veikindum þegar kísilverið starfaði.

„Í frummatsskýrslu þarf að gera grein fyrir áhrifum kísilversins á heilsu þar sem megin áhersla verði lögð á afleidd áhrif á heilsu af loftgæðum einkum af völdum mengunarefna og lyktar frá verksmiðjunni,“ segir í ákvörðun Skipulagsstofnunar.

Þá sé nauðsynlegt að setja fram tillögu að vöktun á áhrifum af starfsemi kísilversins á heilsu á rekstrartíma.

Kisilmálmverksmiðjan í Helguvík var áður rekin undir nafni United Silicon eða þar til Arion banki yfirtók reksturinn og stofnaði félag utan um hann. Arion var stærsti kröfuhafi United Silicon.

Félagið hyggst miða að því að gera verksmiðjuna fullbúna til framleiðslu, uppfylla skilyrði Umhverfisstofnunar fyrir starfseminni og selja verksmiðjuna svo.

Vinna þurfi að kynningu og samráði

Skipulagsstofnun telur að vinna þurfi sérstaklega að kynningu og samráði gagnvart íbúum við vinnslu frummatsskýrslu svo hægt sé að reka verksmiðjuna í sátt við íbúa svæðisins. Í skýrslunni þurfi að koma fram hvernig þessum þætti hafi verið sinnt og sérstök áhersla lögð á samráð um þau atriði sem áhyggjur íbúa beinast einna helst að.

Þá þurfi einnig að gera grein fyrir fráveitu og hugsanlegum áhrifum á grunnvatn vegna framkvæmdarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×