Framkvæmdastjórar flokkanna ekki alveg að kaupa þetta
Framkvæmdastjórarnir, sem hittast reglulega til að bera saman bækur sínar og huga að sameiginlegum hagsmunamálum, telja þetta á afar gráu svæði en meðal þeirra eru fyrrverandi blaða- og fréttamenn svo sem þær Karen Kjartansdóttir hjá Samfylkingunni og Björg Eva Erlendsdóttir hjá Vinstri grænum.
Flott umfjöllun fyrir 70 þúsund krónur
Því er lofað að þetta verði flott umfjöllun þar sem flokkarnir geti kynnt afstöðu sína til 3. orkupakkans og gert grein fyrir plúsum og mínusum. „Heilsíða ásamt grein á Dv.is er á 70.000kr +vsk.“Kristjón Kormákur Guðjónsson lét nýverið af störfum sem ritstjóri DV en starfandi sem slíkur er Einar Þór Sigurðsson. Hann hafði ekki heyrt af þessu.
„Ég kem af fjöllum. Þetta er ekkert sem er á snærum okkar hér á ritstjórninni.“

Ritstjórinn segir þetta á grensunni
„Það er sjónarmið sem ég get tekið undir heilshugar, að það þurfi að vera ákveðin lína þarna á milli, svo ég tali fyrir mig sem fagmaður í þessu fagi. Mikilvægt að þarna séu skýrar línur,“ segir Einar Þór:„Þetta er á grensunni, ég verð að viðurkenna það og segja hreint út. Sem fagmaður í blaðamennsku. Og verð að vísa til Karls. Að mínu mati væri eðlilegast að svona umfjöllun sé á forræði ritstjórnar blaðsins, til að tryggja að öll sjónarmið komi fram, ekki bara þeirra sem eru tilbúnir að borga fyrir að koma þeim á framfæri. Þarna er um að ræða stórt hagsmunamál fyrir íslenskt samfélag og mjög mikilvægt að allir fái að koma sinni rödd að.“
Vísir hefur gert ítrekaðar tilraunir í morgun til að ná í Karl Garðarsson framkvæmdastjóra DV en án árangurs. Samkvæmt upplýsingum í móttökunni er hann nú kominn í páskafrí.