Innlent

Nettröllin brjóta sér leið í raunheima

Jakob Bjarnar skrifar
Bæði Guðmundur Andri og Páll hafa áhyggjur af þeirri heift sem virðist vera að brjóta sér leið úr viðjum netsins og í raunheima.
Bæði Guðmundur Andri og Páll hafa áhyggjur af þeirri heift sem virðist vera að brjóta sér leið úr viðjum netsins og í raunheima.
Páll Winkel fangelsismálastjóri telur fyrirliggjandi að heiftin sem finna má á netinu og félagslega einangrað fólk tileinkar sér geti reynst hættuleg.

Vísir greindi frá því fyrr í dag að Guðmundur Andri Thorsson alþingismaður hafi orðið fyrir því í vikunni að maður, titrandi af reiði, hafi veist að honum í Hagkaup í Garðabæ. Með svívirðingum og fúkyrðaflaumi.

Frásögn Guðmundar Andra hefur vakið verulega athygli og er Páll einn þeirra sem kveðið hafa sér hljóðs á Facebooksíðu Guðmundar Andra. Páll hefur áralanga reynslu í að takast á við bæði andlega vanheilt fólk sem og brotamenn.

„Ég kannast við svona uppákomur og hef lent í þessu ítrekað. Ég held þó að þetta sé almennt bara veikt fólk sem lætur svona, óháð skoðunum þjóðfélagshópa og bakgrunni.“

Páll segir að það sem hafi breyst frá fyrri tímum er að þetta viðkvæma fólk er útsett fyrir ótrúlegu magni af ruglskoðunum og fullyrðingum sem vella út um allt á samfélagsmiðlum.

„Svoleiðis þvættingur hefur meiri áhrif á þá sem eru félagslega einangraðir að öðru leyti, veikir fyrir og geta vegna lélegrar félagslegrar stöðu ekki speglað skoðanir sínar við annað venjulegt, skynsamt fólk. Samfélagsmiðlar móta því ansi mikið skoðanir þessa hóps og ég held að það geti raunverulega orðið hættulegt ástand.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×