Körfubolti

Jón: Vissum að við myndum ekki hitta svona illa allan tímann

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jón er búinn að koma Keflavík í úrslit.
Jón er búinn að koma Keflavík í úrslit. vísir/bára
„Þetta var takmarkið og hefur verið í allan vetur, þrátt fyrir að við höfum ekki fengið „kredit“ frá mjög mörgum,“ sagði Jón Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur, eftir sigurinn á Stjörnunni í oddaleik suður með sjó í kvöld. Með sigrinum komst Keflavík í úrslit um Íslandsmeistaratitilinn í 19. sinn.

Leikurinn var lengst af jafn en Keflvíkingar stungu af undir lokin og unnu á endanum 16 stiga sigur, 85-69.

„Þótt Brittanny [Dinkins] hafi ekki fengið hvíld náði ég að hvíla lykilmenn sem komu ferskir inn á undir lokin. Það skilaði okkur klárlega þessum sigri,“ sagði Jón.

Keflavík hitti skelfilega fyrir utan þriggja stiga línuna í leiknum, allt þar til undir lokin þegar skotin rötuðu loksins rétta leið.

„Leikurinn var í járnum og þær komust yfir tvisvar eða þrisvar. Við hittum illa en ég vissi að við myndum ekki hitta svona illa allan leikinn. Það hlaut að koma að því skotin færu ofan í,“ sagði Jón.

Í úrslitaeinvíginu mætir Keflavík deildar- og bikarmeisturum Vals.

„Þið munuð sjá baráttu. Því get ég lofað. Valsliðið hefur verið ólseigt síðan Helena [Sverrisdóttir] en KR sýndi öðrum liðum að það er hægt að standa í þeim og vinna þær,“ sagði Jón að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×