Aðgerðirnar hafa áhrif á leiðir 12, 14, 15,16, 17, 21,24, 28, 35 og 36.vísir/vilhelm
Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó, segir að flestir viðskiptavinir fyrirtækisins hafi verið meðvitaðir um verkfallsaðgerðir strætóbílstjóra sem hófust í morgun.
„Heilt yfir gekk þetta vel í morgun. Ég mætti sjálfur upp í Mjódd klukkan hálf átta í morgun og er ljóst að langflestir hafi verið meðvitaðir um aðgerðirnar,“ segir Guðmundur Heiðar. Einhverjir hafi þó hringt inn í þjónustverið til að spyrjast fyrir.
Frá Hlemmi í morgun.Vísir/Egill AðalsteinssonBoðað verkfall bílstjóra Kynnisferða, sem eru félagsmenn í Eflingu, hefur mikil áhrif á leiðir Strætó sem umræddir bílstjórar aka. Akstur tíu strætóleiða á höfuðborgarsvæðinu fellur þannig niður á háannatíma að morgni og síðdegis, milli sjö og níu að morgni og 16 og 18 síðdegis.
Aðgerðirnar munu standa alla virka daga til 30. apríl, eða þar til samningar nást.
Fólk að bíða eftir strætó í Mjóddinni í morgun.Vísir/Egill AðalsteinssonGuðmundur Heiðar segir Strætó hafi auglýst verkfallsaðgerðirnar í Strætóappinu og heimasíðunni, auk þess að fjölmiðlar hafi verið duglegir að greina frá áhrifum verkfallsaðgerðanna.
Aðgerðirnar hafa áhrif á leiðir 12, 14, 15, 16, 17, 21,24, 28, 35 og 36.
Fari svo að ekkert komi út úr viðræðum Samtaka atvinnulífsins og Eflingar munu hefjast verkföll hjá Almenningsvögnum Kynnisferða á tímabilinu 1. til 30. apríl.