Skoðun

Réttlæti sem sanngirni

Bjarni Karlsson skrifar
Nú standa yfir kjarasamningar. Ég efast um að fólk vilji almennt hærri laun. Það sem misbýður almenningi er öllu heldur misskipting launa. Annars vegar er það „óútskýrður“ launamunur kynja sem öll vita hvaðan stafar. Hins vegar er það vitneskjan um bilið milli ríkra og fátækra. Við höfum það flest fjárhagslega gott en þjóðin er frústreruð vegna langþróaðrar ósanngirni sem blasir við öllum. Innst inni finnum við að það er galið að hafa það þægilegt á kostnað annarra. Hugsið ykkur ef hin efnahagslega yfirstétt í landinu sýndi þann sóma að takmarka laun sín við þrefaldar eða fjórfaldar meðaltekjur hins almenna manns, síðan væri hinum lægst launuðu lyft upp úr sinni efnahagslegu og félagslegu lægingu, jafnlaunavottun gerð að reglu og húsnæðisþörf almennings viðurkennd í verki. Þá yrði bjartara í landinu.

Sýnt hefur verið fram á að tíðni glæpa, ólæsis, fangelsana, þorra sjúkdóma, ótímabærra þungana og andláta, ofbeldis o.fl. vandamála að ógleymdum sjálfum vistkerfisvandanum stendur í beinu sambandi við efnahagslegan ójöfnuð. Gott lesefni um þetta má t.d. finna í bókinni Hallamálið sem á frummáli heitir The Spirit Level frá 2010. Þar er einvörðungu stuðst við opinberar tölur í hverju landi og mældur launajöfnuður borinn saman við algengi alls konar vesens og áfalla.

Tilfellið er að 1% heimsbúa hagnast á ójöfnuði á meðan hin öll, að vistkerfinu meðtöldu, tapa á ástandinu. Mannkyn hefur orðið að því sem það er vegna getu þess til samvinnu og sátta. Við fæðumst með þessi stóru höfuð vegna þess að sáttaferli eru flókin. Eina bótin á okkar þjóðar-gremju og versnandi ástandi veraldar er aukið réttlæti í formi sanngirni.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×