Erlent

Brexit: Við­ræðurnar sagðar ítar­legar og árangurs­ríkar

Atli Ísleifsson skrifar
Rebecca Long Bailey, skuggaráðherra viðskiptamála, og Sir Keir Stramer, skuggaráðherra Brexit-mála, yfirgefa fundinn í Westminster síðdegis í dag.
Rebecca Long Bailey, skuggaráðherra viðskiptamála, og Sir Keir Stramer, skuggaráðherra Brexit-mála, yfirgefa fundinn í Westminster síðdegis í dag. Getty
Viðræður milli samningshópa breska Íhaldsflokksins og Verkamannaflokksins stóðu yfir í hálfan fimmta tíma í dag. Viðræðurnar miða að því að ná samkomulagi um hvernig Bretar skuli leysa úr þráteflinu þegar kemur að útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.

Viðræðurnar hófust í gær, héldu áfram í dag og verður fram haldið á morgun. BBC hefur eftir talsmanni bresku stjórnarinnar að viðræðurnar hafi verið bæði ítarlegar og árangursríkar.

Sir Keir Starmer, skuggaráðherra Brexit-mála, segir að hugmyndir um nýja þjóðaratkvæðagreiðslu um staðfestingu á hverjum þeim útgöngusamningi sem þingið kann að samþykkja, verði til umræðu. Þá staðfesti hann að framhald yrði á viðræðunum á morgun.

Breska þingið samþykkti í gær tillögu um að skipa Theresu May forsætisráðherra að biðja ESB um frest á útgöngu Bretlands. Var tillagan samþykkt með eins atkvæðis mun í gærkvöldi. Henni er ætlað að koma í veg fyrir að Bretland gangi úr sambandinu án samnings.

Evrópusambandið hefur þegar framlengt Brexit-ferlið til 12. apríl en upphaflega ætluðu Bretar að ganga út 29. mars síðastliðinn. Breska þingið hefur þó ítrekað hafnað útgöngusamningnum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×