Viðræður milli samningshópa breska Íhaldsflokksins og Verkamannaflokksins stóðu yfir í hálfan fimmta tíma í dag. Viðræðurnar miða að því að ná samkomulagi um hvernig Bretar skuli leysa úr þráteflinu þegar kemur að útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.
Viðræðurnar hófust í gær, héldu áfram í dag og verður fram haldið á morgun. BBC hefur eftir talsmanni bresku stjórnarinnar að viðræðurnar hafi verið bæði ítarlegar og árangursríkar.
Sir Keir Starmer, skuggaráðherra Brexit-mála, segir að hugmyndir um nýja þjóðaratkvæðagreiðslu um staðfestingu á hverjum þeim útgöngusamningi sem þingið kann að samþykkja, verði til umræðu. Þá staðfesti hann að framhald yrði á viðræðunum á morgun.
Breska þingið samþykkti í gær tillögu um að skipa Theresu May forsætisráðherra að biðja ESB um frest á útgöngu Bretlands. Var tillagan samþykkt með eins atkvæðis mun í gærkvöldi. Henni er ætlað að koma í veg fyrir að Bretland gangi úr sambandinu án samnings.
Evrópusambandið hefur þegar framlengt Brexit-ferlið til 12. apríl en upphaflega ætluðu Bretar að ganga út 29. mars síðastliðinn. Breska þingið hefur þó ítrekað hafnað útgöngusamningnum.
Brexit: Viðræðurnar sagðar ítarlegar og árangursríkar

Tengdar fréttir

Buðu opinberum starfsmönnum sálræna aðstoð vegna Brexit
Umhverfis-, matvæla- og landsbyggðarráðuneytið réði fyrirtæki sem sérhæfir sig í hugrænni atferlismeðferð þegar undirbúningur fyrir útgöngu án samnings stóð sem hæst í vetur.

May og Corbyn segja viðræðurnar hafa verið „uppbyggilegar“
Leiðtogar stærstu flokkanna á breska þinginu funduðu síðdegis í dag og sammæltust um verkáætlun sem miðar að því að finna leið í Brexit-málum sem þingheimur geti greitt atkvæði um.

Samþykktu að skipa May að biðja ESB um frest
Breska þingið fær að ráða hversu langur fresturinn verður samkvæmt frumvarpi sem neðri deildin samþykkti í trássi við vilja ríkisstjórnarinnar í gær.