Dómari á Nýja-Sjálandi hefur skipað manninum, sem sakaður er um að hafa banað fimmtíu manns í hryðjuverkaárásinni í Christchurch í síðasta mánuði, að gangast undir geðrannsókn.
Dómarinn Cameron Mander úrskurðaði að sérfræðingar skyldu leggja mat á andlega heilsu Brenton Tarrant, 28 ára Ástrala sem grunaður er um árásina, og hvort að hann sé sakhæfur.
Tarrant hóf skothríð í og við tvær moskur í Christchurch þann 15. mars síðastliðinn og streymdi hann árásinni á Facebook.
Tarrant mætti ekki fyrir dómara þegar málið var tekið fyrir fyrr í dag, en var á upptöku frá öryggisfangelsinu í Paremoremo þar sem hann dvelur nú. Hann tjáði sig þó ekkert.
Fullt var út að dyrum í dómssalnum þar sem aðstandendur fórnarlamba Tarrant voru saman komnir.
Tarrant hefur verið ákærður fyrir fimmtíu morð og 39 tilraunir til morðs. Hann hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 14. júní.
