Erlent

Stjórnarandstaðan boðar aðra vantrauststillögu gegn May

Kjartan Kjartansson skrifar
Miklar líkur eru taldar á að ríkisstjórn May fari í hundana.
Miklar líkur eru taldar á að ríkisstjórn May fari í hundana. Vísir/EPA
Talsmaður Verkamannaflokksins í utanríkismálum segir að sú stund gæti runnið upp að flokkurinn beri fram aðra vantrauststillögu á hendur ríkisstjórn Theresu May, forsætisráðherra. Útgöngusamningi May var hafnað í þriðja skiptið í þinginu í fyrradag.

Emily Thornberry, talsmaður Verkamannaflokksins, sagði Sky News-sjónvarpsstöðinni sagði augljóst að vantraust gæti komið til bráðlega.

May stóð af sér vantrauststillögu í janúar, daginn eftir að útgöngusamningi hennar var hafnað í fyrsta skipti. Það var stærsti ósigur forsætisráðherra í atkvæðagreiðslu í breska þinginu frá upphafi.

Bretar hafa frest til 12. apríl til að samþykkja útgöngusamningi eða óska eftir langri frestun á útgöngunni. Að öðrum kosti þurfa þeir að ganga úr án samnings eftir rétt tæpar tvær vikur.

Dagblaðið Sunday Times heldur því fram í dag að vaxandi líkur séu á því að May velji þann kost að boða til þingkosninga. Komi hún útgöngusamningi ekki í gegnum þingið á næstu dögum sé hætta á að ríkisstjórn hennar liðist í sundur. Að minnsta kosti sex ráðherrar sem styðja aðild að ESB séu tilbúnir að segja af sér ákveði hún að ganga úr ESB án samnings. Önnur fylking innan ráðherraliðsins sé á sama tíma tilbúin að segja af sér telji hún May ekki ganga nógu langt í að rjúfa tengslin við Evrópu.

Breskir kjósendur mega þó ekki eiga von á mikilli stefnubreytingu hrökklist ríkisstjórn May frá og Verkamannaflokkurinn taki við. Thornberry sagði líklegt að undir stjórn flokksins myndi Bretland halda sig við þá stefnu að ganga úr Evrópusambandinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×