Dómstóll í ríkinu Himachal Pradesh í Indlandi hefur sýknað fjóra menn af ákæru um að hafa komið fyrir sprengjum í lest á ferð milli Indlands og Pakistans árið 2007. Dómarar sögðu sannanir skorta til sakfellingar.
Mikill eldur kom upp eftir að tvær heimagerðar sprengjur sprungu í Samjhauta Express lestinni í febrúar 2007. Alls fórust 68 manns í árásinni, flestir pakistanskir ríkisborgarar.
Saksóknarar í Indlandi sögðu hina ákærðu, sem eru hindúar, hafa borið ábyrgð á sprengingunum til að hefna sín á árásum íslamskra öfgamanna gegn hofum hindúa.
Upphaflega voru átta manns grunaðir um árásina. Einn þeirra var myrtur í lok 2007, fjórir voru leiddir fyrir dómara, en þrír eru enn á flótta.
Einn þeirra sem nú hefur verið sýknaður hefur áður setið í fangelsi vegna málsins eftir að hann játaði aðild að brotunum. Hann dró hins vegar játninguna síðar til baka og sagðist hafa verið pyndaður.
Mikil spenna hefur verið í samskiptum Indlands og Pakistans að undanförnu.
