Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan 89 - 80 Grindavík | Stjarnan hóf einvígið með naumum sigri

Þór Símon Hafþórsson skrifar
Vísir/Vilhelm
Stjarnan og Grindavík mættust í fyrsta leik einvígi liðanna í úrslitakeppni Dominos deildar karla í körfubolta. Stjarnan endaði sem bikar- og deildarmeistarar í vetur á meðan Grindavík endaði í 8. sæti deildarinnar. Þar að auki sigraði Stjarnan báða leiki liðanna í vetur og því ljóst að heimaliðið var sigurstsranglegri aðilinn.

 

Og það var ekki að ástæðulausu ef eitthvað var að marka byrjun leiksins. Stjarnan hóf 1. leikhluta á að komast í 13-3 forystu strax í upphafi. Grindavík svaraði þó vel fyrir sig og minnkaði forystuna niður í sex stig þegar 1. leikhluta lauk. Sagan var heldur betur svipuð í 2. leikhluta er Stjarnan valtaði yfir gestina fyrri hluta leikhlutans áður en Grindavík svaraði vel fyrir sig. Staðan í hálfleik var þó ansi afgerandi eða 47-36, Stjörnunni í vil.

 

Grindavík átti hinsvegar í eini orði geggjaðan 3. leikhluta þar sem liðinu tókst að minnka muninn í einungis 3 stig með því að skora heil 30 stig á 10 mínútum. Það stefndi því allt í frábæran loka leikhluta en þrátt fyrir að Grindavík náði á einum tímapunkti að taka forystu endaði leikurinn með 9 stiga sigri Stjörnunnar, 89-80. 

 

vísir/vilhelm
Afhverju vann Stjarnan?

Ef þú hefðir beðið einhvern álits gjafa eða veðbanka um líklegustu úrslit kvöldsins þá fullyrði ég að allir hefðu sagt að Stjarnan myndi vinna. Stjarnan er með betra lið og meiri breidd og því ljóst að um gífurlega fjallgöngu er að ræða fyrir Grindavík.

 

Grindavík sýndi þó í þessum leik að þeir eiga fullt erindi í þessa rimmu. Sigur á sunnudaginn á þeirra skærgula heimavelli og það þýðir að þetta einvígi er galopið.

 

Þeir þurfa þó að landa sigri gegn Stjörnunni, eitthvað sem þeim hefur ekki tekist í, nú, þremur tilraunum í vetur.   

 

Hverjir stóðu upp úr?

Í liði Grindavíkur er ekki annað hægt en að nefna Ólaf Ólafsson sem hreif mig mjög í kvöld, ekki í fyrsta skiptið. Það sást best á hans framlagi að jafnvel þegar Grindavík var 10 stigum undir var liðið yfir á þeim tíma sem hann var á vellinum. Hann var eini leikmaður Grindavíkur sem gat skartað því og hann spilaði í heilar 34 mínútur. 

 

Einnig ber að nefna Lewis Clinch hjá Grindavík en hann endaði með 31 stig.

 

Hjá Stjörnunni voru svo til allir heilt yfir góðir. Hlynur var solid sem fyrr og Brandon Rozzell átti mikið af mikilvægum stigum á lykil augnablikum og skilaði heilt yfir 21 stigum.

 

Hvað gekk illa?

Grindavík var hörmulegt fyrstu fimm mínúturnar í bæði 1. og 2. leikhluta. Ef Grindavík ætlar að vinna þetta einvígi er ljóst að þeir mega helst ekki við því og þurfa þess í stað að spila góðan, eða a.m.k. jafn góðan leik í 40 mínútur. 

 

Erfitt að lasta Stjörnumönnum en þó varla annað hægt en að nefna Colin Anthony sem tókst, þrátt fyrir að vera með fínar tölur sóknarlega, að tapa sínum mínútum með 9 stigum þær 20 mínútur sem hann spilaði. Hann og Filip Kramer voru einu leikmenn Stjörnunnar sem töpuðu sínum mínutum nema að Filip spilaði helmingi minna.

 

Hvað gerist næst?

Stjarnan mætir til Grindavíkur í 2. leik liðanna. Grindavík VERÐUR að vinna þann leik.

 

vísir/vilhelm
Ólafur: Sönnuðum að við eigum fullt erindi í þetta lið

Ólafur Ólafsson, leikmaður Grindavíkur, átti flottan leik í kvöld er hann og hans menn töpuðu fyrsta leik einvígsins gegn deildar- og bikarmeisturum Stjörnunnar.



„Við sönnuðum það fyrir okkur og alla þá sem horfa á körfubolta á Íslandi að við eigum fullt erindi í þetta lið,“ sagði Óafur sem skoraði 13 stig í kvöld.

 

Grindavík lenti á tímabili í 2. leikhluta 20 stigum undir en komu sterkir til baka og náðu meira að segja að taka forystu snemma í 4. leikhlutanum. 

 

„Við höfum oft þegar við lendum svona undir lagst niður og hætt en við ákváðum að halda áfram. Við erum ógeðslega góðir í körfubolta þegar við nennum að gera þetta af fullum krafti og ég hlakka til að spila á sunnudaginn,“ sagði Ólafur sem er spenntur eins og allir körfubolta áhugamenn að úrslitakeppnin sé byrjuð.

 

„Þetta er skemmtilegasti tíminn í deildinni. Hefði auðvitað verið skemmtilegra að lenda ofar í deildinni en það er alltaf gaman að koma með smá upset,“ sagði Ólafur og segir Grindvíkinga ætla sér að mæta grimmir til leiks á sunnudaginn.

 

„Við þurfum að undirbúa okkur vel og mæta tilbúnir í alvöru baráttu á sunnudaginn.“

 

vísir/vilhelm
Arnar: Fegnir að sigra í kvöld

„Ég hvorki velti því fyrir mér né hugsaði út í það,“ sagði Arnar Guðjónsson, aðspurður hvort hann hefði haldið að sigurinn væri í augsýn strax í 2. leikhluta er Stjarnan sigldi í 20 stiga forskot.

 

Stjarnan var með leikinn í hendi sér en eftir slakar lokamínútur rétt fyrir hálfleik og í upphafi 3. leikhluta var leikurinn skyndilega galopinn.  

 

„Við enduðum hálfleikinn mjög illa. Þetta var svolítið copy/paste af leiknum okkar fyrir viku síðan. Þá enduðu þeir hálfleikinn illa og komu flatir í seinni hálfleikinn. Núna vorum það við,“ sagði Arnar sem gefur lítið fyrir það að Stjarnan sé sigurstranglegri aðilinn í einvíginu.

 

„Við vissum alveg að þeir væru hættulegir. Þeir eru með landsliðsmenn og góða útlendinga og við erum bara fegnir að ná þessum sigri. Við þurfum að gera okkur klára núna fyrir sunnudaginn.“

 

vísir/vilhelm
Jóhann Þór: Ef og Hefði systurnar hefðu getað skilað sigrinum

„Ég er mjög sáttur með frammistöðuna. Heilt yfir var hún flott og númer eitt, tvö og þrjú þá sýndum við okkur sjálfum að við getum keppt við þetta lið,“ sagði Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, eftir tapið gegn Stjörnunni í kvöld

 

„Við töluðum um það fyrir einvígið að við þurfum að halda dampi. Taka eina sókn í einu. Við höfum verið fastir í því í vetur að þegar við lendum á svona slæmum kafla þá reynum við þriggja stiga skot sem ekki einu sinni eldheitur Kobe Bryant myndi reyna. Skot sem skilar þeim frákasti og skyndisókn á meðan við náum aldrei að setja upp vörn,“ sagði Jóhann en ólíkt oft á tíðum í vetur mætti liðið mótbyrnum af fullri hörku og rifu sig aftur í leikinn.

 

„Þriðji leikhlutinn var geggjaður og seinni hálfleikurinn bara heilt yfir. Ef systurnar: Ef og Hefði, hefðu verið með okkur þá er ég viss um að við hefðum tekið þetta,“ sagði Jóhann sem kveðst spenntur fyrir sunnudeginum er liðin mætast að nýju.

 

vísir/vilhelm
Hlynur: Breiddin skilar okkur sigrinum

„Eftir að þeir komu til baka fengu þeir allan meðbyrinn með sér. Þeir áttu erfitt með að skora í upphafi leiks en svo missum við einbeitingu og förum að einbeita okkur af dómurunum og gáfum þeim ódýrar körfur,“ sagði Hlynur Bæringsson, leikmaður Stjörnunnar eftir sigur liðsins á Grindavík í kvöld.

 

Sem fyrr segir tók Stjarnan góða forystu en gestirnir frá Grindavík tókst að rífa sig aftur inn í leikinn. 

 

„Við misstum einbeitingu og þeir fengu sjálfstraust sem þerir voru ekki með í upphafi leiks,“ sagði Hlynur sem telur að breidd Stjörnunar hafi haft úrslitaáhrif í lok leiksins.

 

„Fannst breiddin skila okkur miklu í restina. Það voru nokkrir hjá þeim sem mikið mæddi á og voru orðnir þreyttir í lokin. Við erum með meiri breidd og vonandi skilar okkur aftur í næsta leik.“

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira