Erlent

Bretland gengur ekki úr ESB í næstu viku

Atli Ísleifsson skrifar
Donald Tusk, forseti leiðtogaráðsins, segir í tísti að Evrópusambandið muni halda áfram undirbúningi fyrir því að Bretar yfirgefi sambandið án samnings.
Donald Tusk, forseti leiðtogaráðsins, segir í tísti að Evrópusambandið muni halda áfram undirbúningi fyrir því að Bretar yfirgefi sambandið án samnings. Getty/Sean Gallup
Leiðtogar aðildarríkja ESB hafa sammælst um viðbrögð við beiðni Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, um að fresta útgöngu Bretlands úr sambandinu.

Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, greindi frá því í kvöld að ESB hafi boðið Bretum að fresta útgöngunni frá 29. mars til 22. maí, svo fremi sem breska þingið samþykki útgöngusamninginn í næstu viku. Fari svo að samningurinn verði felldur í breska þinginu í næstu viku frestist útgangan til 12. apríl. Hefur Tusk staðfest að May hafi samþykkt skilmálana.

Leiðtogaráð Evrópusambandsins kom saman til fundar í Brussel í morgun og hafa viðræður staðið í allan dag. May greindi frá því í gær að hún hafi formlega beðið um að útgöngunni yrði frestað til 30. júní. Nú er hins vegar ljóst að frestur sá sem ESB býður Bretum er mun styttri. Skýrist það af því að kosningar til Evrópuþingsins fara fram dagana 23. til 26. maí.

Donald Tusk segir í tísti að Evrópusambandið muni halda áfram undirbúningi fyrir því að Bretar yfirgefi sambandið án samnings.

May ávarpaði þjóð sína frá Downingstræti í gærkvöldi þar sem hún varpaði ábyrgðinni á herðar þingmanna að enn hafi ekki tekist að leysa úr málum er varða útgönguna.

Sagðist May skilja afstöðu afstöðu almennings sem hafi fengið sig fullsaddan af deilum stjórnmálamanna um útgönguna. Þá sagðist forsætisráðherrann ekki vilja aðra þjóðaratkvæðagreiðslu um málið þar sem breska þjóðin hafi nú þegar sagt sína skoðun.


Tengdar fréttir

Þingmenn bálreiðir út í May

Theresa May forsætisráðherra Breta situr nú undir harðri gagnrýni, ekki síst frá hennar eigin flokksmönnum, eftir ræðu sem hún flutti til bresku þjóðarinnar í gærkvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×