Fótbolti

Raggi Sig: Þeir voru gjörsamlega óþolandi

Arnar Geir Halldórsson og Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifa
„Mjög fegnir. Þetta var skyldusigur fyrir okkur og við gerðum þetta vel. Við bjuggumst við að þeir myndu leyfa okkur vera með boltann. Við sköpuðum fleiri færi í byrjun leiks en ég bjóst við fyrirfram. Það tók smá tíma að ná seinna markinu en svo kom það og við sigldum þessu heim,“ sagði Ragnar Sigurðsson, eftir leik Íslands og Andorra í kvöld.

Andorra fékk nokkrar hornspyrnur í fyrri hálfleik og Ragnar var ekki sáttur við það.

„Já. Við vorum klaufar að vera að brjóta af okkur nálægt markinu okkar. Við vissum að þetta væri það eina sem þeir gætu. Lélegt hjá okkur að vera að bjóða upp á það en sem betur fer kláruðum við það,“ segir Ragnar.

Hann kvartaði ekki undan gervigrasinu og var ánægður með hvernig íslenska liðið höndlaði óþolandi lið heimamanna.

„Það var allt í lagi. Þetta var ekkert frábært gervigras en það skiptir ekki máli í svona leik.“

„Þeir voru gjörsamlega óþolandi eins og við vissum. Við náðum að halda haus; ég held að enginn hafi fengið gult spjald svo þetta var mjög fagmannlegt hjá okkur,“ sagði Ragnar.

Ísland heimsækir Frakkland á mánudag. Hvernig leggst það verkefni í Ragnar?

„Það verður miklu erfiðari leikur og öðruvísi leikur. Við verðum ekki jafn mikið með boltann og það verður krefjandi verkefni fyrir okkur,“ sagði Ragnar að lokum.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×