Fótbolti

Hamrén: Mikilvægast að vinna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
„Ánægjan er meiri en léttirinn,“ sagði Erik Hamrén í samtali við Vísi eftir sigur íslenska karlalandsliðsins í fótbolta á Andorra, 0-2, í kvöld. Þetta var fyrsti sigur Íslands í 16 leikjum og sá fyrsti undir stjórn Hamréns.

„Eins og ég var búinn að segja var þetta erfiður leikur. Við þurftum að byrja undankeppnina vel, þurftum að fá þrjú stig og það gekk eftir. Við héldum hreinu og fengum engin spjöld svo ég er sáttur,“ sagði Hamrén.

Andorra lá aftarlega og varðist af miklum móð. Ísland braut ísinn á 22. mínútu með marki Birkis Bjarnasonar. Hamrén segir að það hafi verið gott að fá íslenskt mark svona snemma leiks.

„Þegar þú spilar á móti svona varnarsinnuðu liði er þægilegra að skora fyrsta markið og snemma. Án þess hefðu þeir getað tafið og gert okkur enn erfiðara fyrir,“ sagði Hamrén.

Annað mark Íslands kom á 80. mínútu þegar Viðar Örn Kjartansson þrumaði boltanum í netið, tíu mínútum eftir að hann kom inn á sem varamaður.

„Ég var mjög ánægður þegar annað markið kom. Þetta var ekki öruggt fyrr en það leit dagsins ljós,“ sagði Hamrén sem kvaðst nokkuð ánægður með spilamennsku Íslands í kvöld.

„Það voru ýmsir hlutir sem við hefðum getað gert betur en það mikilvægasta var að vinna. Þetta var erfiður völlur eins og ég var búinn að tala um. Við unnum og ég er mjög ánægður. Þetta var mikilvægasti leikur ársins hingað til og núna er leikurinn gegn Frakklandi sá mikilvægasti.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×