England fékk draumabyrjun í undankeppni EM 2020 þegar liðið rúllaði yfir Tékkland, 5-0, á Wembley í gær. Raheem Sterling skoraði þrennu í leiknum og Harry Kane eitt mark auk þess sem Tomás Kalas, varnarmaður Tékka, skoraði sjálfsmark.
Enska landsliðið er taplaust í síðustu 40 leikjum sínum í undankeppnum EM og HM. Síðasta tap Englendinga í undankeppni kom gegn Úkraínumönnum, 1-0, í október 2009. Það var eina tap Englands í undankeppni HM 2010. Liðið vann hina níu leikina með markatölunni 34-5.
Síðan England missti af sæti á EM 2008 eftir 2-3 tap fyrir Króatíu á Wembley haustið 2007 hefur liðið aðeins tapað einum af 49 leikjum sínum í undankeppum. England hefur unnið 39 leiki og gert níu jafntefli.
Í síðustu fimm undankeppnum hefur England unnið sinn riðil og miðað við leikinn í gær er ekki ólíklegt að enska liðið vinni sinn riðil í undankeppni í sjötta sinn í röð. England vann m.a. sinn riðil í undankeppni EM 2016 með fullu húsi stiga.
Á mánudaginn mætir England Svartfjallalandi í öðrum leik sínum í undankeppni EM 2020. Auk Englands, Svartfjallalands og Tékklands eru Búlgaría og Kósovó í riðlinum. Tvö efstu liðin komast beint inn á EM.
Hafa ekki tapað leik í undankeppni í áratug

Tengdar fréttir

Þrenna Sterling kafsigldi Tékkum
Enska landsliðið byrjaði undankeppni EM 2020 með látum á Wembley í kvöld þar sem Tékkar voru í heimsókn.