Fótbolti

Aron Einar: Sviðsskrekkur það síðasta sem við höfum áhyggjur af

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í París skrifar
Aron Einar Gunnarsson er heill heilsu og klár í slaginn fyrir leikinn gegn Frakklandi á Stade de France í undankeppni EM 2020 á morgun.

„Ég er góður,“ sagði hann einfaldlega. „Þetta var langur dagur í gær vegna ferðalagsins en við höfum náð að hrista það úr okkur og erum vel stemmdir fyrir morgundeginum.“

Ísland vann 2-0 sigur á Andorra á föstudag og þar sem allur gærdagurinn fór í að koma liðinu til Parísar hafði íslenska liðið aðeins daginn í dag til að undirbúa sig fyrir þennan mikilvæga leik gegn heimsmeisturunum.

„Við áttum góðan fund áðan, extra langan fund. Við fórum vel yfir lið Frakka. Við höfum líka spilað við þá áður og vitum hverju við erum að mæta á morgun. Þetta verður annar erfiður leikur enda erfitt að mæta heimsmeisturunum á þeirra heimavelli. En við gerðum það í október og þá gekk okkur mjög vel,“ sagði Aron og vísaði til 2-2 jafnteflisins í vináttulandsleiknum í Guingamp í október.

Leikurinn á morgun verður þó allt annars eðlis enda mótsleikur sem fer fram á þjóðarleikvangi sjálfra heimsmeistaranna að viðstöddum tugþúsunda áhorfenda. Aron segir þó enga ástæðu til að óttast tilefnið.

„Það góða við okkar lið nú er að margir okkar búa yfir ákveðinni reynslu. Aðrir sem hafa komið inn í liðið eru þess fyrir utan algerlega óhræddir. Það síðasta sem við þurfum að hafa áhyggjur af er sviðsskrekkur. Við erum fullir tilhlökkunar og erum í þessu til að spila þessa leiki, gegn þessum þjóðum. Að fá 70-80 þúsund manns á völlinn er bara bónus.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×