Fótbolti

Southgate varar við æstum stuðningsmönnum: Agaleysi hefur farið illa með okkur

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Það var ýmsu fleygt í átt að Joe Hart síðast þegar England mætti til Svartfjallalands
Það var ýmsu fleygt í átt að Joe Hart síðast þegar England mætti til Svartfjallalands vísir/getty
Gareth Southgate, landsliðsþjálfari Englands, varaði leikmenn sína við því að láta lætin í stuðningsmönnum Svartfjallalands ekki hafa áhrif á sig þegar liðin mætast í undankeppni EM 2020 í kvöld.

Southgate segist búast við því að það verði mikil læti á vellinum í Podgorica í kvöld og stuðningsmenn heimamanna gætu farið ófögrum orðum um leikmenn enska liðsins.

„Agaleysi hefur stundum farið illa með okkur. Ég ætlast til þess að leikmennirnir geti betur í kvöld og haldi ró sinni. Það getur haft mikil áhrif að missa mann af velli og við verðum að passa okkur á því,“ sagði Southgate.

Wayne Rooney var sendur af velli þegar England sótti Svartfjallaland heim árið 2011 og 2013 hrækti áhorfandi úr stúkunni á Ashley Cole.

Þá er nokkuð algeng að blysum eða öðrum hlutum sé kastað inn á völlinn.

„Við ræddum um það að fara ekki og fjarlægja slíka hluti sjálfir, heldur láta dómarann vita. Það er hans starf að sjá um svona lagað því það getur verið hættulegt að eiga við þessa hluti.“

England byrjaði undankeppnina vel með 5-0 sigri á Tékkum og vilja fylgja honum eftir með góðum úrslitum í Svartfjallalandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×