Erlent

Sannir Finnar á siglingu þegar stutt er til kosninga

Atli Ísleifsson skrifar
Jussi Halla-aho er formaður Sannra Finna.
Jussi Halla-aho er formaður Sannra Finna. EPA
Sannir Finnar mælast nú þriðji stærsti flokkurinn í Finnlandi samkvæmt nýrri könnun ríkisútvarpsins þar í landi, YLE. Rúmar tvær vikur eru til þingkosninga, en þær fara fram þann 14. apríl. Stór hluti kjósenda hafa enn ekki gert upp hug sinn hvaða flokk þeir ætli sér að kjósa.

Í könnunnni mælast Sannir Finnar með 15,1 prósent fylgi, en fylgið mældist 13,3 prósent í síðustu könnun YLE sem framkvæmd var í febrúar. Sannir Finnar reka harða stefnu í innflytjendamálum.

Jafnaðarmannaflokkurinn mælist sem fyrr stærstur með 20,1 prósent fylgi, og er hann eini flokkurinn sem mælist með meira en 20 prósent fylgi. Flokkurinn mældist með 21,3 prósent fylgi í síðustu könnun.

Sambandsflokkurinn mæst næst stærstur með 15,8 prósent fylgi, Sannir Finnar 15,1 prósent, Miðflokkur Juha Sipilä forsætisráðherra 14,4 prósent og Græningjar 13 prósent fylgi.

Sannir Finnar tóku sæti í ríkisstjórn Sipilä eftir kosningarar 2015, en eftir innanflokksátök 2017 sagði rúmur helmingur þingmanna flokksins, þar með talið formaðurinn og utanríkisráðherrann Timo Soini, skilið við þingflokkinn og mynduðu Bláa umbótaflokkinn. Blái umbótaflokkurinn átti þá áfram sæti í ríkisstjórn Sipilä, en þeir sem eftir voru í þingflokki Sannra Finna gengu til liðs við stjórnarandstöðuna.

Í frétt YLE segir að um fjörutíu prósent aðspurðra hafi enn ekki gert upp hug sinn hvaða flokk þeir ætli sér að kjósa þann 14. apríl.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×