Innlent

Airport Associates segir upp 315 starfsmönnum

Jakob Bjarnar skrifar
Sigþór segir fall WOW air kalla á endurskipulagningu og uppsagnir. Hann vonast til að ráða marga þeirra starfsmanna sem nú fengu uppsagnarbréf aftur.
Sigþór segir fall WOW air kalla á endurskipulagningu og uppsagnir. Hann vonast til að ráða marga þeirra starfsmanna sem nú fengu uppsagnarbréf aftur. visir/vilhelm
Airport Associates hefur gripið til þess ráðs að segja upp 315 starfsmönnum. Þetta kemur í kjölfar þess að WOW air féll í gær. Sigþór Kristinn Skúlason, forstjóri Airport Associates, sagði í viðtali við fréttastofu í gær að fyrirtækið þyrfti að grípa til uppsagna og endurskipulagningar og nú liggur það fyrir.

Sigþór var fremur daufur í dálkinn þegar Vísir ræddi við hann fyrir stundu. Hann sagði að hlutfall starfsemi flugafgreiðsluþjónustu Airport Associates hafi að helmingi snúið að verkefnum tengdum WOW air.

„Þetta kallar á miklar breytingar. Við gerum ráð fyrir því að endurráða marga af þessum 315 aftur. En, þetta er hugsað til að milda höggið. Við þurfum að endurskipuleggja allt vaktafyrirkomulag. Nú er til dæmis ekkert að gera á þeim tíma sólarhringsins þar sem í nógu var að snúast. Við munum bjóða þessum starfsmönnum vinnu aftur en þá hugsanlega miðað við minna starfshlutfall.

Sigþór segir að þeir hjá Airport Associates vonist að sjálfsögðu til að það muni fyllast fljótt upp í hvað verkefnastöðu fyrirtækisins varðar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×