Alls voru rúmlega 370 Boeing 737 Max 8 þotur í umferð áður en vél Ethiopian Airlines hrapaði skömmu eftir flugtak á leið sinni til Naíróbí á sunnudag. Alls fórust 157 manns í slysinu.
Upp hafa vaknað spurningar um öryggi umræddrar flugvélagerðar, ekki síst í ljósi þess að Boeing 737 Max-þota Lion Air hrapaði í Jövuhaf í október síðastliðnum með þeim afleiðingum að 189 biðu bana.
Virði þessa stærsta flugvélaframleiðanda heims hefur lækkað um milljarða dala frá því að markaðir opnuðu á mánudag. Skyldi engan undra, þegar þetta er skrifað er búið að kyrrsetja rúmlega 40 prósent allra Boeing 737 Max 8 véla í heiminum, 97 þeirra í Kína. Engin flugvélagerð hefur selst jafn vel í sögu Boeing en flugfélög um allan heim höfðu pantað rúmlega 4100 slíkar vélar fyrir slys helgarinnar. Ekki liggur fyrir á þessari stundu hvort að það muni hafa áhrif á þessar útistandandi pantanir.

Sem stendur eru Kína, Indónesía, Ástralía og Singapúr einu þjóðríkin sem hafa kyrrsett Boeing 737 Max 8. Bandarísk flugmálayfirvöld hafa þó gert kröfu um gerðar verði lagfæringar á vélunum, þá sérstaklega á stýrikerfinu og búnaði sem ætlað er að koma í veg fyrir ofris.
Fjölmörg flugfélög hafa hins vegar hætt notkun vélanna að eigin frumkvæði. Má í því samhengi nefna stærsta flugfélag Brasilíu, GOL, sem var með sjö slíkar þotur í flota sínum auk hins mexíkóska Aeroméxico sem reiddi sig á sex Boeing 737 Max 8. Sömu sögu má segja um Cayman Airways og Comair.
Icelandair, sem er með 3 samskonar þotur í flota sínum, hefur hins vegar ekki tekið ákvörðun um kyrrsetningu vélanna - þrátt fyrir áhyggjur viðskiptavina. Fulltrúar flugfélagsins hafa veitt skýr svör á síðustu dögum, aðspurðir um hvort farþegar Icelandair þurfi að óttast um öryggi sitt: Nei, flugfélagið ber enn fullt traust til Boeing 737 Max 8.
Sem fyrr segir voru á fjórða hundrað slíkra véla í háloftunum fyrir kyrrsetninghrinu síðustu daga. Þær hafi flogið þúsundir flugleggja í viku hverri án nokkurra vandkvæða. Engu að síður sé Icelandair með tilbúna aðgerðaráætlun, komi til þess að flugmálayfirvöld kyrrsetji þoturnar.