Svona hefst grein MMA-blaðamannsins Cillian Cunningham á vefsíðunni Pundit Arena þar sem hann fjallar um Gunnar Nelson í aðdraganda bardagans stóra gegn Leon Edwards á UFC-kvöldinu í Lundúnum á laugardaginn.
Gunnar kom gríðarlega sterkur til baka eftir slæmt tap á móti Santiago Ponzinibbio og langvarandi meiðsli þegar að hann pakkaði saman kúrekanum Alex Oliveira í Toronto í desember á síðasta ári. Þar minnti íslenski bardagakappinn rækilega á sig.
„Allir sem hafa fylgst með ferli Gunnars vita hversu góður hann er eins og átta sigrar og þrjú töp í UFC gefa til kynna en þetta hefur ekki gengið eins smurt fyrir sig og margir hefðu vonað,“ skrifar Cunningham.
„Gunnar Nelson er vafalítið einn sá vanmetnasti í íþróttinni í dag. Hann er frábær að klára bardaga og hefur gert það í 16 af 17 sigrum sínum. Einu töpin voru dómaraúrskurður á móti Rick Story, annað tap á stigum gegn goðsögninni Damian Maia og svo tap eftir augljóst augnapot á móti Santiago Ponzinibbio,“ segir Cunningham.
„Þessi töp, fyrir utan tapið gegn Ponzinibbio, voru mikilvæg fyrir Gunnar til að þroskast og þó hann sé ekki alveg jafn heitur núna og hann var þegar að hann kom inn í UFC eru þeir sem að eitthvað vita um íþróttina spenntir fyrir að sjá hann í Lundúnum um helgina,“ segir Cillian Cunningham.