Erlent

Ætlar að hvetja Evrópuríki til að veita Bretum frest

Kjartan Kjartansson skrifar
Donald Tusk, forseti Evrópuráðsins.
Donald Tusk, forseti Evrópuráðsins. Vísir/EPA
Donald Tusk, forseti Evrópuráðsins, segist ætla að hvetja leiðtoga aðildarríkja Evrópusambandsins til að vera opnir fyrir því að veita Bretlandi frest frá fyrirhugaðri útgöngu sinni verði það niðurstaða breska þingsins. Greidd verða atkvæði um frestun Brexit í kvöld.

Breskir þingmenn höfnuðu því naumlega að ganga úr Evrópusambandinu án útgöngusamnings í atkvæðagreiðslu í gærkvöldi. Þeir höfnuðu einnig tillögu um að fresta útgöngunni, sem er fyrirhuguð 29. mars, fram í maí. Atkvæðagreiðslan í dag er um hvort Bretlandi eigi að óska eftir leyfi frá Evrópusambandinu til að fresta útgöngunni í ótilgreindan tíma.

Fulltrúar Evrópusambandsins hafa gefið til kynna að þeir séu ekki til frekari viðræðna um breytingar á útgöngusamningnum sem breskir þingmenn hafa í tvígang hafnað með afgerandi meirihluta.

Í tísti í dag sagðist Tusk ætla að biðla til aðildarríkjanna 27 að vera opin fyrir langri framlengingu á Brexit ef Bretum finnist nauðsynlegt að endurskoða áform sín og byggja upp stuðning við þau, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, er sögð ætla að leggja útgöngusamning sinn fyrir þingið í þriðja skiptið í næstu viku. Hún hefur sagt þingmönnum að verði samningurinn felldur enn einu sinni gæti þurft að fresta Brexit verulega, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.


Tengdar fréttir

Brexit-samningur May felldur aftur

Atkvæðagreiðslan var mjög afgerandi en 391 þingmenn greiddu atkvæði gegn samningnum en 242 greiddu atkvæði með honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×