„Ef ferðaþjónustan í heild er skoðuð þá hefur hluti launþega, af því sem er til skiptanna, aukist mun meira en það sem fer til lánveitenda og eigenda. Séu aðeins hótelin skoðuð þá er skiptingin nokkuð jöfn,“ segir Konráð Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs.
Hagfræðingurinn bendir á að vísbendingar séu á lofti um að það muni harðna á dalnum í ár hjá ferðaþjónustufyrirtækjum.

Mikilvægt sé að hafa í huga að ferðaþjónustan er útflutningsgrein. Lífsgæði hér á landi hangi saman við útflutning þjóðarinnar. Forsenda þess að unnt sé að flytja inn vörur sé að eitthvað sé flutt út á móti.
„Ef hér verða launahækkanir sem útflutningsgreinar standa ekki undir þá er ég ekki viss um að gengið verði fellt líkt og áður. Seðlabanki Íslands starfar eftir lögbundnu verðbólgumarkmiði. Mig grunar að bankinn myndi halda aftur af gengisveikingu með sölu á hluta gjaldeyrisforðans. Þá er hættan hreinlega sú að hér skapist atvinnuleysi,“ segir Konráð.
Konráð segir að allir séu sammála um að keppikeflið sé að bæta kjör landsmanna og þá sérstaklega hjá þeim sem lægst launin hafa. Launahækkanir umfram verðmætasköpun séu aftur á móti ekki leiðin til þess. Hins vegar sé mögulegt að auka framboð á húsnæði auk þess sem sveitarfélög gætu komið til móts við almenning og fyrirtæki með lækkun fasteignagjalda. Hlutur ríkisins gæti á móti miðað að því að lækka tryggingagjaldið, auka stuðning við barnafjölskyldur, auka veg nýsköpunar og plægja akurinn fyrir lækkun vaxta svo nokkur dæmi séu tekin.
„Leiðin sem verkalýðsforystan leggur til er ekki aðeins óvænleg til árangurs heldur gæti hún jafnvel skaðað lífskjör, sérstaklega hjá þeim sem lægstu launin hafa, ef atvinnuleysi fer á flug,“ segir Konráð.