Erlent

Hyggst aldrei nefna á­rásar­manninn á nafn

Atli Ísleifsson skrifar
Jacinda Ardern hefur gegnt embætti forsætisráðherra Nýja-Sjálands frá 2017.
Jacinda Ardern hefur gegnt embætti forsætisráðherra Nýja-Sjálands frá 2017. epa
Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, hét því í dag að hún muni aldrei nefna árásarmanninn í Christchurch á nafn. 28 ára Ástrali skaut fimmtíu manns til bana og særði tugi til viðbótar í tveimur moskum síðastliðinn föstudag.

„Hann vildi að hryðjuverk hans myndu leiða til mikils, meðal annars frægðar. Hana mun hann ekki fá frá mér,“ sagði Ardern í ræðu sinni sem hún flutti á nýsjálenska þinginu í morgun.

Ardern hefur kallað hryðjuverkaárásina þá verstu í sögu landsins og hefur ríkisstjórn landsins tilkynnt að til standi að herða vopnalöggjöfina í landinu. Verði tillögur stjórnarinnar kynntar innan tíu daga frá árásinni.

Ardern hóf ræðu sína í morgun á því að segja arabíska frasann „Al-Salaam Alaikum“ sem þýða má sem „friður sé með yður“.

Var forsætisráðherranum tíðrætt um nauðsyn þess að hugsa til fórnarlambanna og aðstandenda þeirra. „Ég bið ykkur um að ræða um þá sem fórust í stað mannsins sem tók þau. Hann er hryðjuverkamaður, hann er glæpamaður, hann er öfgamaður. Og þegar ég tala, þá verður hann nafnlaus,“ sagði Ardern.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×