Togstreitan á milli kjarnorkuveldanna tveggja hefur aukist gríðarlega frá því að liðsmaður hryðjuverkasamtakanna JeM felldi fjörutíu Indverja í Pulwama í indverska hluta Kasmír fyrir tveimur vikum.
Indverjar áfellast Pakistana, segja að þeir ættu að hafa upprætt starfsemi JeM fyrir löngu. Síðan þá hafa Indverjar sagst hafa gert loftárás á þjálfunarbúðir JeM, hermenn hafa skotið hvorir á aðra á hinum eiginlegu landamærum í Kasmír og Pakistanar sagst hafa gert loftárásir á indverska hluta Kasmír auk fyrrnefndrar gröndunar indverskra herflugvéla.
Khan var lofaður fyrir ákvörðun sína í gær og sagður sækja í átt að friði. „Þetta gleður mig mjög. Ég hafði krafist lausnar hans. Þetta er skref í átt að bættu sambandi og ég vona að þessi þróun haldi áfram,“ sagði Amarinder Singh, æðsti ráðherra hins indverska Púnjab-ríkis.
En forsætisráðherrann og fyrrverandi krikketstjarnan Khan tók skýrt fram að þótt Pakistanar vildu vissulega létta á spennunni á milli ríkjanna mætti ekki horfa á ákvörðunina sem merki um veikleika.
„Indverjar hafa ákveðið að ala á einhverri stríðsmóðursýki. Ég vil hrósa pakistönskum fjölmiðlum fyrir ábyrgðarfulla umfjöllun þeirra. Okkar miðlar hafa ekki tekið þátt í þessari móðursýki,“ hafði pakistanski miðillinn Tribune eftir Khan, sem minntist í sömu andrá á að kosningar væru á döfinni í grannríkinu.

„Á undanförnum tveimur sólarhringum hafa Indverjar brotið gegn vopnahléinu í Kotli, Kjuiratta og Tatta Pani við landamærin. Pakistanskir hermenn hafa svarað í sömu mynt. Fregnir berast af mannfalli indverskra hermanna og tjóni á indverskum herstöðvum. Vísvitandi árásir Indverja á almenna borgara hafa leitt af sér fjóra píslarvottadauða,“ sagði Ghafoor á fundinum. Bað hann almenning um að gleypa ekki við öllum orðrómi sem þeir heyra.
Og Indverjar eru sömuleiðis í viðbragðsstöðu. Narendra Modi forsætisráðherra kallaði saman helstu ráðgjafa, herforingja og ráðherra á neyðarfund í gær en ekki liggur fyrir hvað þar fór fram.
Æðstu yfirmenn indverska hersins boðuðu svo til blaðamannafundar þar sem þeir sögðust tilbúnir til þess að takast á við allar mögulegar aðgerðir Pakistana, hvað sem lausn fangans líður. Þeir sögðu pakistanska herinn hafa aukið á togstreituna með því að ráðast á indverska hernaðarinnviði á miðvikudaginn.
„Pakistanski flugherinn reyndi að skemma innviði okkar en indversk herflugvél hrakti þá á brott. Pakistanskar sprengjur hafa fallið á indverskar herstöðvar en ekki valdið neinu meiriháttar tjóni,“ hafði Times of India eftir R.G.K. Kapoor, marskálki í flughernum.