Lífið

Í­búar Notting Hill fengið sig full­sadda af á­hrifa­völdum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Litrík hús Notting Hill eru vinsæl á meðal áhrifavalda í myndatökur fyrir Instagram.
Litrík hús Notting Hill eru vinsæl á meðal áhrifavalda í myndatökur fyrir Instagram. vísir/getty
Íbúar í Notting Hill, einu þekktasta hverfi London sem er vinsæll áfangastaður ferðamanna, hafa fengið sig fullsadda af áhrifavöldum sem nota íbúðahús þeirra sem bakgrunn á myndum sem síðan er póstað á Instagram.

Samkvæmt frétt Evening Standard segja íbúar hverfisins að götur Notting Hill séu orðnar að nokkurs konar ljósmyndastúdíóum fyrir „Insta-túrista“, eins og þeir eru kallaðir í blaðinu, tveimur áratugum eftir að hverfið varð heimsþekkt í samnefndri kvikmynd sem skartaði þeim Hugh Grant og Juliu Roberts í aðalhlutverkum.

„Í fyrstu var þetta bara gaman en nú er þetta orðið brjálaðra. Veggirnir eru frekar þunnir svo þú heyrir í þeim hlæja og stýra myndatökum þegar þú situr inni í stofu. Um helgar eru að minnsta kosti fjórir hópar að taka myndir á sama tíma. Þetta er skrýtið og þetta var ekki svona,“ segir Daphne Lamirel, 21 árs gamall íbúi í Notting Hill.

Olivia Lamb býr nálægt neðanjarðarlestarstöðinni í Notting Hill. Hún segir áhrifavaldana koma sér fyrir framan við íbúðahús í hverfinu og séu þar jafnvel tímunum saman að taka myndir í mismunandi klæðnaði.

„Ég hef margsinnis séð tröppurnar á húsinu okkar á Instagram,“ segir Lamb.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×