Stjórnarandstaðan á Indlandi hefur undanfarna daga gagnrýnt Narendra Modi forsætisráðherra og ríkisstjórn BJP-flokksins, harðlega fyrir að beita indverska hernum í pólitískum tilgangi. Þetta kom fram í umfjöllun BBC í gær.
Rekja má óánægjuna til ummæla B.S. Yeddyurappa, eins leiðtoga flokksins, um að deilurnar við Pakistan muni skila flokknum á þriðja tug þingsæta til viðbótar í komandi kosningum. Deilurnar snúast um Kasmírsvæðið, sem ríkin gera bæði tilkall til. Eftir að hryðjuverkasamtök, með höfuðstöðvar í Pakistan, felldu fjörutíu herþjálfaða Indverja í indverska Kasmír fór allt í bál og brand. Indverjar áfelldust Pakistana fyrir að hafa ekki upprætt starfsemina. Síðan sögðust Indverjar hafa gert loftárás á þjálfunarbúðir samtakanna, sem Pakistanar sögðu rangt, og Pakistanar skutu niður indverska herflugvél.
Þingkosningar fara fram á Indlandi í apríl og maí. Þá mun bandalag miðju- og vinstriflokka (UPA), undir forystu Congress-flokksmannsins Rahul Gandhi veita BJP harða samkeppni. Samkvæmt nýlegri könnun VDP stefnir í að bandalagið sem BJP leiðir fái 242 sæti en UPA 148. Hvorugur flokkur með hreinan meirihluta.
Í klandri vegna átaka í Kasmír
Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
