Erlent

Franskur kardináli dæmdur fyrir að hylma yfir kynferðisbrot

Kjartan Kjartansson skrifar
Barbarin segist ætla að senda páfa afsagnarbréf sitt.
Barbarin segist ætla að senda páfa afsagnarbréf sitt. Vísir/EPA
Erkibiskupinn í Lyon ætlar að segja af sér eftir að hann var dæmdur sekur um að hylma yfir ásakanir um kynferðisbrot gegn prestum í biskupsdæmi hans. Hann er hæst setti ráðamaður kaþólsku kirkjunnar sem hefur hlotið dóm vegna kynferðisbrota gegn börnum.

Dómstóll í Lyon dæmdi Philippe Barbarin í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi í dag. Hann var sakaður um að hafa á árunum 2014 og 2015 hylmt yfir með presti sem var sakaður um kynferðisbrot gegn skátadrengjum á 9. og 10. áratug síðustu aldar. Réttað verður yfir prestinum síðar á þessu ári, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Barbarin hefur hafnað því að hafa leynt ásökununum gegn prestinum. Brotin sem presturinn er sakaður um áttu sér stað tugum ára áður en Barbarin tók við sem erkibiskup í Lyon árið 2002. Lögmaður Barbarin segir að hann ætli að áfrýja niðurstöðunni.

Ekki liggur fyrir hvort að Frans páfi ætli að samþykkja afsögn Barbarin sem hefur enn stöðu kardinála kaþólsku kirkjunnar. Barbarin sagði eftir að dómurinn lá fyrir að fórnarlömb misnotkunarinnar og fjölskyldur þeirra væru í „bænum hans“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×