Meðlimir Hatara, sem verður fulltrúari Íslands í Tel Aviv í Eurovision-söngvakeppninni sem þar verður haldin í maí. Sverrir sjálfur er, eins og flestir áhugamenn um tónlist þekkja, magnaður söngvari og sprenglærður sem slíkur. Hann var í þrjú ár við nám í Alexandertækni í London. Í samtali við Vísi slær hann á létta strengi með það að helsti kennari hans í þeim fræðum, gúrú og meistari, hafi komið frá Ísrael. Þannig að það liggi eiginlega beint við að RÚV kaupi miða fyrir sig út, til að fylgja Hatara og vera þeim innan handar og til stuðnings. „Já, ég ætti kannski að krefjast þess að fara með út sem raddþjálfari?“ spyr Sverrir.
Klárir og skemmtilegir strákar
Meðlimir Hatara er í einskonar fjölmiðlabanni og að sögn Sverris hafa þeir nú svigrúm til að þróa sitt atriði. Hann segir þetta klára, skemmtilega og flotta stráka og telur jákvætt að þeir hafi unnið. Þarna sé komin nýr og spennandi flötur á þessa keppni. Kveður við nýjan tón.
Sverrir segir að þegar álag og stress eru til staðar, og þátttaka í Eurovision býður vissulega uppá slíkt, þá sé það fyrsta sem gefi sig sé öndunin. Hún verður grunn og þá fari lítið fyrir tóninum. Þar kemur Alexandertæknin til skjalanna.

Tónninn verður að vera í öllum líkamanum
Sverrir segir það rétt, Klemens syngur í falsettu og það er það sem þeir voru að vinna með. Þetta getur verið vandasamt en einhverjir sem telja sig bera skynbragð á töldu talsvert meiri kraft í söngnum uppteknum en á sviði.„Við þurfum að opna tóninn þannig að hann gæti verið sterkari á sviði.Og að hann sé ekkert smeykur við að láta í sér heyra og geti sungið út á sviði. Það virkaði mjög vel fyrir hann. Það þarf að fara varlega í svona hluti, ekki er gott að ætlast til þess að viðkomandi breyti of miklu. Það þarf að halda í það sem hann er öruggur með og finna að hann geti stækkað þetta. Að þetta sé líkamlegt og tónninn í öllum skrokknum,“ segir Sverrir kontratenór.
Ekkert vantaði uppá að þetta virkaði þegar stóra stundin rann upp, úrslitin í Söngvakeppninni í Laugardalshöll um síðustu helgi. En, nú er það enn stærra svið sem bíður, sjálft aðalsviðið í Eurovision.