Erlent

Þriggja vikna gamall sonur Shamimu Begum látinn

Andri Eysteinsson skrifar
Shamima Begum fór til Sýrlands árið 2015 til að ganga til liðs við ISIS ásamt tveimur öðrum stúlkum.
Shamima Begum fór til Sýrlands árið 2015 til að ganga til liðs við ISIS ásamt tveimur öðrum stúlkum. Vísir/Getty
Þriggja vikna gamall sonur breska táningsins Shamimu Begum, sem flaug til Sýrlands árið 2015 til þess að ganga til liðs við ISIS, er látinn. BBC greinir frá því að drengurinn, sem Begum átti með hollenska vígamanninum Yago Riedijk, hafi látist úr lungnabólgu.

Begum hafði fyrr á árinu biðlað til breskra yfirvalda og vildi fá að snúa aftur heim, uppi varð fótur og fit í heimalandi og tóku stjórnvöld illa í beiðni Begum og ákváðu að svipta hana breskum ríkisborgararétti.

Drengurinn, sem hafði hlotið nafnið Jarrah, var þriðja barn hinnar 19 ára gömlu Begum, öll eru þau látin. Þar sem Jarrah fæddist áður en móðir hans var svipt breskum ríkisborgararétti taldist hann vera breskur ríkisborgari.

Innanríkisráðherra Bretlands, Sajid Javid hafði staðfest það nokkru áður, í samtali við BBC sagði Javid að hann fyndi til með öllum börnum sem ættu um sárt að binda á stríðshrjáðum svæðum Sýrlands, allt of mörg saklaus börn hefðu, því miður, fæðst inn á átakasvæði.

Faðir barnsins, Yago Riedijk, er í haldi nokkru frá flóttamannabúðunum hvar Begum hefur dvalið ásamt barni sínu. Að sögn BBC hafa fréttirnar borist til hans. Riedijk hafði nýlega greint frá draumum sínum um að setjast að í heimalandi sínu ásamt eiginkonu og barni.

Viðbrögð hollenskra yfirvalda voru að ítreka afstöðu sína að ef hollenskir vígamenn sneru aftur yrði réttað yfir þeim og þeir fangelsaðir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×