Fótbolti

Leikir á HM 2027 gætu farið fram á Íslandi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Laugardalsvöllur þyrfti væntanlega að stækka fyrir HM.
Laugardalsvöllur þyrfti væntanlega að stækka fyrir HM. vísir/vilhelm
Leikur eða leikir á heimsmeistaramóti kvenna í fótbolta árið 2027 gætu mögulega farið fram á Íslandi en starfshópur á vegum knattspyrnusambanda Norðurlandanna (Danmörk, Færeyjar, Finnland, Ísland, Noregur og Svíþjóð) hafa undanfarið ár skoðað möguleikann á því að standa að sameiginlegri umsókn um að halda alþjóðlegt stórmót.

Þetta kemur fram í frétt á vef KSÍ en þar segir að eftir að hafa kynnt sér ýmsa möguleika hjá UEFA og FIFA ætla knattspyrnusamböndin sex að halda verkefninu áfram en það hefur fengið vinnuheitið Vision 2027.

Nú hefst undirbúningur að forkönnun á mögulegri umsókn Norðurlandanna að halda úrslitakeppni HM 2027. FIFA hefur lýst því yfir að sambandið muni líta jákvæðum augum á sameiginlegar umsóknir sem opnar dyrnar fyrir frændurnar í norðri.

„Knattspyrnusamböndin sex hafa nú þegar ályktað að möguleg umsókn skuli byggð á sameiginlegum norrænum gildum.  Fyrrnefndri forkönnun er ætlað að leiða í ljós hversu marga leikvanga á Norðurlöndunum þarf til að uppfylla kröfur FIFA vegna úrslitakeppni HM kvennalandsliða,“ segir í frétt KSÍ.

Fyrir utan leikvangana sjálfa þarf að gera ráð fyrir mannvirkjum og aðstöðu tengda úrslitakeppninni en heimsmeistaramót er vitaskuld risastórt í smíðum.

Í fyrsta þrepi verkefnisins verður kannað hvaða borgir og hvaða leikvangar á Norðurlöndunum hafa áhuga á að taka þátt í forkönnuninni.

HM 2019 fer fram í Frakklandi en ekki er enn búið að finna stað fyrir HM 2023.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×