Erlent

Vilja fresta útgöngu Bretlands úr ESB náist samningar ekki

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Amber Rudd er einn ráðherranna þriggja sem segjast tilbúnir að fara gegn Theresu May náist ekki samningar við Evrópusambandið.
Amber Rudd er einn ráðherranna þriggja sem segjast tilbúnir að fara gegn Theresu May náist ekki samningar við Evrópusambandið. Chris J Ratcliffe/Getty
Þrír ráðherrar í ríkisstjórn Bretlands hafa hvatt til þess að útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, sem fyrirhuguð er seint í næsta mánuði, verði frestað, samþykki þingið ekki drög að útgöngusamningi við Evrópusambandið.

Ráðherrarnir þrír, Greg Clarke, David Gauke og Amber Rudd, sögðu í samtali við Daily Mail að tíminn til samninga væri senn á þrotum og að þau vonuðust eftir tímamótaskrefi í samningaviðræðum við Evrópusambandið sem allra fyrst.

Ef ekkert slíkt næðist væru þau tilbúin að fara gegn Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, og kjósa með frestun á útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, eða Brexit. Þetta er í fyrsta sinn sem ráðherrarnir þrír lýsa þessum skoðunum sínum yfir opinberlega.

Þremenningarnir telja að ef þingið samþykki ekki samning við Evrópusambandið sé hagsmunum Bretlands betur borgið með því að fresta útgöngu heldur en að „hrynja út úr Evrópusambandinu,“ eins og þau sjálf orðuðu það.

Í yfirlýsingu frá Downing-stræti 10 segir að afstaða ráðherranna sé illa geymt leyndarmál. Ráðherrunum var þar sendur tónninn þar sem fullyrt er að May forsætisráðherra vinni nú hörðum höndum að því að gera samning við Evrópusambandið sem geri ríkisstjórninni kleift að standa við það sem lofað var með þjóðaratkvæðagreiðslunni um útgöngu Breta úr Evrópusambandinu og að þar ættu áherslur allrar ríkisstjórnarinnar að liggja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×