Erlent

Verkamannaflokkurinn mun styðja aðra þjóðaratkvæðagreiðslu um Brexit

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Jeremy Corbyn er leiðtogi Verkamannaflokksins.
Jeremy Corbyn er leiðtogi Verkamannaflokksins. Vísir/Getty
Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, hyggst tilkynna þingmönnum flokksins í kvöld að flokkurinn muni styðja að önnur þjóðaratkvæðagreiðsla um Brexit fari fram.

Breskir fjölmiðlar greina frá og vísa í yfirlýsingu frá Verkamannaflokknum. Þar segir að markmið flokksins sé að koma í veg fyrir að Bretland yfirgefi Evrópusambandið án samnings við ESB auk þess sem flokkurinn hafi ekki mikla trú á að Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, takist að landa viðunandi samningi sem njóti stuðnings þingmanna.

Aðeins er rúmlega mánuður þangað til Bretland mun yfirgefa Evrópusambandið og hefur May staðið í ströngu við að reyna að semja við ESB um breytingar á samningi um skilmála útgöngu Bretlands úr ESB, án árangurs.

Guardian greinir frá því að fyrst um sinn muni forysta Verkamnnaflokksins beita sér fyrir því að breytingartillögur flokksins við Brexit-samningi forsætisráðherrans verði samþykktar, en þær fela meðal annars í sér að dagsetningu Brexit verði frestað náist ekki samningur fyrir 29. mars.

Nái þær ekki fram að ganga muni flokkurinn snúa sér að því að haldin verði önnur þjóðaratkvæðagreiðsla um úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu.

Skiptar skoðanir eru þó um málið innan Verkamannaflokksins en í frétt Guardian segir að búist sé við því að fjöldi þingmanna flokksins muni sitja hjá eða greiða atkvæði gegn tillögu um nýja þjóðaratkvæðagreiðslu.

Níu þingmenn hafa yfirgefið flokkinn á síðustu dögum, meðal annars vegna ósættis um stefnu flokksins í Brexit-málum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×