Fitch Rating varar við því að fasteignasjóðir í Bretlandi gætu stöðvað viðskipti með bréf sín á næstu vikum vegna óróleika í tengslum við Brexit. Fjárfestar munu þá ekki geta selt bréf sín í sjóðunum en það varð raunin þegar Bretar kusu að ganga úr Evrópusambandinu í júní 2016. Þetta kemur fram í frétt Financial Times.
Fram kemur í greiningu Fitch Rating að ólíklegt sé að fasteignasjóðir sem hægt er að eiga viðskipti með á hverjum degi geti mætt útflæði ef það vex verulega. Sjóðirnir mæta útflæði með því að selja atvinnuhúsnæði í sinni eigu en það tekur töluverðan tíma. Slíkir sjóðir gefa fjárfestum færi á að eiga viðskipti með fasteignir innan dags sem ella getur verið tímafrekt.
Fitch Rating segir að fjárfestar gætu brugðist harðar við á næstu vikum en við kosningunum árið 2016, einkum ef niðurstaðan verður útganga úr Evrópusambandinu án samnings. Greinendurnir telja að sjóðirnir hafi ekki yfir nægu lausafé að ráða til að hægt sé að eiga viðskipti með bréf þeirra við þær kringumstæður.
Fjárfestar hafa í auknum mæli tekið fjármagn úr fasteignasjóðum því þeir óttast að Brexit muni hafa slæm áhrif á starfsemi þeirra. Um er að ræða hundruð milljóna punda á undanförnum mánuðum. Í desember drógu fjárfestar 315 milljónir punda úr slíkum sjóðum sem er svipuð fjárhæð og tveimur mánuðum eftir atkvæðagreiðsluna um útgöngu úr Evrópusambandinu.
Viðskipti erlent