Samkomulag WOW air við leigusalana er þannig mikilvægur áfangi í viðræðum flugfélagsins, sem Skúli Mogensen stýrir, og bandaríska fjárfestingafélagsins en vonir hafa staðið til þess að kaup síðarnefnda félagsins á 49 prósenta hlut í íslenska félaginu gangi í gegn fyrir lok þessa mánaðar. Sem kunnugt er rennur frestur sem skuldabréfaeigendur WOW air veittu félaginu til þess að ná samkomulagi við Indigo Partners út á morgun, 28. febrúar.
Unnið er hörðum höndum að því þessa dagana að ganga endanlega frá viðskiptunum, eftir því sem heimildir Markaðarins herma, en ráðgjafar félaganna vinna nú meðal annars að því að ljúka gerð lögfræðilegrar áreiðanleikakönnunar.
Á meðal þeirra mála sem WOW air þurfti að leiða til lykta til þess að viðræðurnar við Indigo Partners gengju eftir voru uppgjör leigusamninga við írsku flugvélaleiguna Avolon vegna fjögurra nýrra Airbus A330 breiðþota. Gengið var frá umræddum tólf ára samningum snemma árs 2017 og átti flugfélagið að fá tvær þotanna afhentar í lok síðasta árs og tvær í lok þessa árs.
Rætt hefur verið um að WOW air þyrfti að greiða verulegar fjárhæðir, sem hlaupa á hundruðum milljóna, til þess að losna undan samningunum og var uppgjör samninganna á meðal stærstu úrlausnarefna flugfélagsins á meðan á viðræðunum við Indigo Partners stóð.
Auk samkomulags við leigusala WOW air fólust skilyrði kaupa bandaríska fjárfestingafélagsins meðal annars í því að flugfélagið næði sáttum við skuldabréfaeigendur félagsins um að þeir féllu frá kaupréttum að hlutafé í því, eins og þeir samþykktu einróma um miðjan síðasta mánuð. Jafnframt féllust þeir á að lengja skuldabréfin um tvö ár og afskrá þau úr kauphöll.

Indigo Partners, sem Bill Franke stofnaði árið 2002, hefur heitið því að fjárfesta fyrir allt að 75 milljónir dala, jafnvirði 9 milljarða króna miðað við núverandi gengi, í WOW air. Hefur félagið tekið fram að endanleg fjárhæð fjárfestingarinnar, sem verður aðallega í formi láns til tíu ára með breytirétti í hlutafé, muni ráðast af því hver fjárþörf flugfélagsins verður á meðan rekstri þess verður snúið við.
Bandaríska fjárfestingafélagið mun til að byrja með eignast 49 prósenta hlut í flugfélaginu, gangi kaupin eftir, en kjósi það hins vegar að nýta sér breytirétt, sem kveðið er á um í skilmálum lánssamnings félaganna tveggja, gæti það eignast stærri hlut.
Tap WOW air nam 33,6 milljónum dala, sem jafngildir um 4 milljörðum króna, á fyrstu níu mánuðum síðasta árs en til samanburðar tapaði félagið 13,5 milljónum dala á sama tímabili árið 2017.
Tekjur flugfélagsins námu liðlega 501 milljón dala, um 59,8 milljörðum króna, á fyrstu níu mánuðum ársins og jukust um 31 prósent frá sama tímabili í fyrra þegar þær voru tæpar 372 milljónir dala.
Rekstrarkostnaðurinn var hins vegar 466,9 milljónir dala á tímabilinu og hækkaði um tæplega 46 prósent frá sama tímabili árið 2017.