Farþegi Air Iceland Connect missti meðvitund þegar vél flugfélagsins var á leið frá Reykjavíkurflugvelli til Ísafjarðarflugvallar í hádeginu í dag.
Brottför vélarinnar frá Reykjavíkurflugvelli var klukkan 12:15 en skömmu áður en hún átti að lenda á Ísafjarðarflugvelli barst starfsmönnum flugvallarins boð frá áhöfn vélarinnar að einn farþeganna hefði misst meðvitund.
Sjúkraflutningamenn voru boðaðir til Ísafjarðarflugvallar sem renndu beint upp að vélinni á flugbrautinni en þegar þeir komu að vélinni hafði farþeginn komist til meðvitundar.
Var hann fluttur til frekari skoðunar á Fjórðungssjúkrahúsið á Ísafirði.
