Erlent

Klofningur Verkamannaflokksins hryggir Corbyn

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Þingmennirnir sjö á fundi í gær.
Þingmennirnir sjö á fundi í gær. Nordicphotos/AFP
Sjö breskir þingmenn tilkynntu í gær að þeir hefðu sagt sig úr Verkamannaflokknum og myndu í staðinn sitja á þingi sem bandalag óháðra þingmanna. Í hópnum eru til að mynda fjórir skuggaráðherrar.

Þingmennirnir lýstu yfir megnri óánægju með flokkinn á blaðamannafundi og í yfirlýsingu á nýrri vefsíðu hópsins. „Verkamannaflokkurinn reynir nú að framfylgja stefnumálum sem veikja varnir okkar, samþykkir frásögn ríkja sem eru okkur fjandsamleg, honum hefur mistekist að leiða Brexit-umræðuna og setja fram annan valkost,“ sagði til að mynda í yfirlýsingu.

Óánægja þingmannanna sjö virðist tvíþætt. Annars vegar eru þau óánægð með forystu Jeremys Corbyn og hins vegar með það sem þau lýsa sem rótgróinni gyðingaandúð innan flokksins.

Luciana Berger, einn þingmannanna og jafnframt gyðingur, sagðist hafa skammast sín fyrir flokkinn. Á blaðamannafundi vísaði hún í mótmæli gyðinga gegn flokknum og talaði um baráttuna fyrir því að fá Verkamannaflokkinn til að viðurkenna skilgreiningu Alþjóðlega minningarbandalagsins um helförina (IHRA) á gyðingahatri.

BBC telur líklegt að fleiri fylgi í fótspor sjömenningana verði ekki gerð bragarbót á þessu.

Corbyn sjálfur hefur brugðist við úrsögnunum með yfirlýsingu.

Þar segir hann að ákvörðunin ylli honum vonbrigðum. Sérstaklega þar sem hann teldi Verkamannaflokkinn á góðri leið og þörf væri á stefnu hans.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×